Ferill 140. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 140 . mál.


744. Nefndarálit



um frv. til l. um starfsmenntun í atvinnulífinu.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á mörgum fundum og fékk til viðræðna um málið Gylfa Kristinsson, deildarstjóra í félagsmálaráðuneytinu og formann þeirrar nefndar er samdi frumvarpið, Guðrúnu Halldórsdóttur, skólastjóra Námsflokka Reykjavíkur, Þuríði Magnúsdóttur frá Fræðslumiðstöð iðnaðarins, Karl Kristjánsson, deildarsérfræðing í menntamálaráðuneytinu, Láru V. Júlíusdóttur, framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands, Þráin Hallgrímsson, skrifstofustjóra Alþýðusambandsins, Snorra Konráðsson, framkvæmdastjóra Menningar- og fræðslusambands alþýðu, Gissur Pétursson, fulltrúa í sjávarútvegsráðuneytinu og fulltrúa í starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar, Þóri Daníelsson, framkvæmdastjóra Verkamannasambands Íslands, Elínborgu Magnúsdóttur, ritara fiskvinnsludeildar Verkamannasambandsins, Þórleif Jónsson, framkvæmdastjóra Landssambands iðnaðarmanna, og Sjöfn Ingólfsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Þá lágu fyrir nefndinni umsagnir sem borist höfðu félagsmálaráðuneytinu þegar frumvarpið var til endurskoðunar í ráðuneytinu. Jafnframt bárust nefndinni umsagnir frá Kennarasambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands.
    Vegna sérstakrar óskar, er fram kom við 1. umr. málsins, sendi nefndin frumvarpið til umsagnar menntamálanefndar 12. febrúar sl. Menntamálanefnd fjallaði um málið á nokkrum fundum og í umsögn meiri hluta nefndarinnar, sem birt er sem fylgiskjal með áliti þessu ásamt umsögn minni hluta nefndarinnar, kemur fram að meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins.
    Miklar umræður hafa orðið um einstök atriði frumvarpsins í nefndinni, m.a. um ákvæði 4. gr. þess um hvar málaflokkur þessi eigi heima í stjórnsýslunni. Meiri hluti nefndarinnar telur þó ekki ástæðu til breytinga á frumvarpinu nema að því er varðar 11. og 15. gr. Breytingin á 11. gr. felur í sér að bætt er við þau skilyrði sem umsókn um styrk úr starfsmenntunarsjóði þarf að uppfylla og tiltekið að fylgja þurfi upplýsingar um leiðbeinendur. Þá er 15. gr., er varðar hugsanlegt mat á námi til námseininga, umorðuð til að gera ákvæði hennar skýrara, en ekki er um efnisbreytingu að ræða.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur á það áherslu að mikilvægt sé að sú starfsmenntun, sem frumvarpið á að stuðla að, komi ekki síst ófaglærðu fólki til góða.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum er fram kunna að koma.

Alþingi, 2. apríl. 1992.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Guðjón Guðmundsson.

Jón Kristjánsson,


form., frsm.

með fyrirvara.



Ingibjörg Pálmadóttir,

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,

Eggert Haukdal.


með fyrirvara.

með fyrirvara.



Einar K. Guðfinnsson.

Hermann Níelsson.





Fylgiskjal I.

Umsögn meiri hluta menntamálanefndar.


(31. mars 1992.)


    Með bréfi dagsettu 12. febrúar sl. óskaði félagsmálanefnd umsagnar menntamálanefndar um frumvarp til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu, 140. mál þingsins. Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um frumvarpið Gylfa Kristinsson, deildarstjóra í félagsmálaráðuneytinu og formann þeirrar nefndar er samdi frumvarpið, Karl Kristjánsson, deildarsérfræðing í menntamálaráðuneytinu, og Gissur Pétursson, fulltrúa í sjávarútvegsráðuneytinu sem jafnframt á sæti í starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar.
    Ágreiningur var í nefndinni um frumvarpið, einkum hvar vista bæri málið í stjórnsýslunni. Meiri hluti nefndarinnar, sem skipaður er öllum nefndarmönnum nema Hjörleifi Guttormssyni, mælir með samþykkt frumvarpsins.
    Meiri hlutinn álítur að það skipti miklu máli fyrir góðan framgang þessa máls að aðilar atvinnulífsins hafi verulegt frumkvæði í allri starfsmenntun.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum er fram kunna að koma.

Sigríður A. Þórðardóttir

,

formaður

.


Fylgiskjal II.

Umsögn minni hluta menntamálanefndar.


(1. apríl 1992.)


    Vísað er til bréfs yðar til menntamálanefndar dags. 12. febrúar 1992 um ofangreint málefni. Undirritaður myndar minni hluta í nefndinni í afstöðu til frumvarpsins og leyfir sér að koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri við félagsmálanefnd.
    Sá tilgangur með flutningi frumvarpsins að hvetja til aukinnar starfsmenntunar í atvinnulífinu er góðra gjalda verður ef málinu verður fylgt eftir með fjárveitingum á fjárlögum. Afar brýnt er að lyfta úr láginni svonefndri verkmenntun og vinna gegn þeirri úreltu aðgreiningu á bóknámi og verknámi sem allt of lengi hefur viðgengist. Það er hins vegar mikill og alvarlegur ljóður á frumvarpinu að gert er ráð fyrir að setja starfsmenntun í atvinnulífinu undir önnur ráðuneyti en ráðuneyti menntamála, sbr. 4. gr. Með því er gengið í öfuga átt að því er varðar samræmingu verkefna innan Stjórnarráðsins. Mikil þörf er á að tengja saman sem verða má almenna fræðslustarfsemi, fullorðinsfræðslu og starfsmenntun í atvinnulífinu. Aðgreining og sérmeðferð verk- og starfsmenntunar innan skóla og utan reisir hindranir sem þörf er á að fjarlægja. Á undanförnum árum hafa ýmsir sérskólar, sem áður heyrðu undir ýmis fagráðuneyti, verið færðir yfir til ráðuneytis menntamála. Engin frambærileg rök eru fyrir því að ætla nú að festa aðra skipan í sessi að því er starfsmenntun í atvinnulífinu varðar. Slíkt mun auka tilkostnað og draga úr möguleikum á að sú starfsemi, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, verði til að styrkja stöðu verkmenntunar.
    Þetta er þeim mun fráleitara þegar litið er til markmiða laganna skv. 1. og 2. gr. þar sem m.a. er gert ráð fyrir „frumkvæði og mótun heildarstefnu varðandi starfsmenntun í atvinnulífinu samkvæmt ákvörðun starfsmenntaráðs“. Til þessarar menntunar á m.a. að heyra grundvallarstarfsmenntun til ákveðinna starfa og eftirmenntun, sbr. 3. gr.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að félagsmálaráðherra skipi sjö manna starfsmenntaráð sem m.a. á að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um stefnumótun og aðgerðir á sviði starfsmenntunar og ákveða forgangsröðun verkefna. Ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir að neinn fulltrúi frá menntamálaráðuneytinu eigi sæti í þessu ráði og væri lítils háttar bragarbót að breytingu í þá veru. Nota hefði átt tækifærið með samningu þessa frumvarps til að tengja saman meginstofn verkmenntunar í landinu sem nú heyrir undir menntamálaráðuneytið og þá starfsfræðslu sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þetta er því miður ekki gert. Í umsögnum um frumvarpsdrög um starfsmenntun í atvinnulífinu, sem send voru út á vegum félagsmálaráðuneytis árið 1990, var m.a. bent á þessa brotalöm af Landssambandi iðnaðarmanna, Sambandi iðnmenntaskóla og Sambandi málm- og skipasmiðja.
    Þá er félagsmálaráðuneyti ætlað að safna saman upplýsingum um starfsmenntun og framboð hennar og miðla þeim til aðila vinnumarkaðarins. Hér er verið að drepa á dreif málum sem eðlilega eiga heima í menntamálaráðuneyti. Aðeins á einum stað í frumvarpinu er minnst á menntamálaráðuneytið, þ.e. í 15. gr. þar sem tekið er fram að hægt sé að fá nám sem styrkt er samkvæmt frumvarpinu „metið til námseininga í hinu almenna skólakerfi samkvæmt reglum sem þar um gilda af hálfu menntamálaráðuneytisins“. Í þessu tilviki má ráðuneyti menntamála koma við sögu þótt það hafi að öðru leyti engan íhlutunarrétt í starfsmenntun í atvinnulífinu.
    Til að gera þennan málatilbúnað enn ruglingslegri er síðan í 4. gr. skotið inn svohljóðandi ákvæði: „Starfsfræðsla í fiskvinnslu skal þó heyra undir sjávarútvegsráðuneytið.“ Sjávarútvegsráðherra eða ráðuneyti sjávarútvegsmála er þó hvergi nefnt annars staðar í frumvarpinu þannig að óljóst er um verkaskiptingu þessara ráðuneyta að öðru leyti. Ekki er heldur vikið orði að þeirri starfsemi sem farið hefur fram á vegum Fræðslumiðstöðvar iðnaðarins um árabil í tengslum við Iðntæknistofnun Íslands og innan vébanda iðnaðarráðuneytisins.
    Undirritaður harmar þá skammsýni sem einkennir stjórnkerfisþátt þessa frumvarps og varar við samþykkt þess í núverandi formi. Hér er verið að spilla annars þörfu máli. Undirritaður mun leitast við að ná fram breytingum á frumvarpinu er það kemur til 2. umr. eða styðja breytingartillögur sem ganga í þá átt sem hér er vísað til.
    Rétt er og að benda á að menntamálaráðherra hefur í gær, 31. mars, lagt fram frumvarp til laga um almenna fullorðinsfræðslu. Eðlilegt hefði verið að Alþingi og nefndum þingsins gæfist kostur á að fjalla um þessi frumvörp samhliða.

Hjörleifur Guttormsson

.