Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 214 . mál.


790. Breytingartillögur



við frv. til l. um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Frá minni hluta menntamálanefndar (HG, KÁ, PBj, VS)

.

Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                  Markmið laganna er að stuðla að jafnrétti til náms. Meginhlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna er að veita námsmönnum fjárhagsaðstoð til náms við menntastofnanir er gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru við háskóla og sérskóla hérlendis. Þó skal veita fjárhagsaðstoð til sérnáms í framhaldsskólum samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð.
    Við 3. gr. Greinin orðist svo:
                  Opinber aðstoð við námsmenn samkvæmt lögum þessum skal nægja hverjum námsmanni til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði þegar eðlilegt tillit hefur verið tekið til fjölskyldustærðar, framfærslukostnaðar þar sem nám er stundað, tekna námsmanns og maka hans, lengdar árlegs námstíma og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns. Nánari ákvæði um úthlutun námslána og styrkja skulu sett í reglugerð. Komi fram óskir eða tillögur um breytingar á útreiknuðum framfærslugrunni samkvæmt þessari grein er ráðherra skylt að láta þriggja manna nefnd fjalla um þær áður en slíkar breytingar eru gerðar. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af menntamálaráðherra, einum tilnefndum sameiginlega af samtökum námsmanna, auk hagstofustjóra eða fulltrúa hans og skal hann vera formaður nefndarinnar.
                  Þeir sem eiga rétt á láni samkvæmt lögum þessum skulu eiga kost á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda. Lánasjóður skal standa honum skil á iðgjaldshluta lánþega ásamt mótframlagi sínu er telst viðbót við lán eins og það annars reiknast. Það rýrir ekki rétt námsmanns til lánsfyrirgreiðslu úr Lánasjóði sem svarar þeim hluta er nemur iðgjaldi að Söfnunarsjóði þótt hann taki ekki námslán til framfærslu sér eða námskostnaðar.
    Við 4. gr. 1. mgr. orðist þannig:
                  Ráðherra skipar stjórn sjóðsins þannig: Einn samkvæmt tilnefningu Stúdentaráðs Háskóla Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra námsmanna erlendis, einn samkvæmt tilnefningu Bandalags íslenskra sérskólanema, einn samkvæmt tilnefningu Iðnnemasambands Íslands, einn samkvæmt tilnefningu fjármálaráðherra og þrjá án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður stjórnar, annar varaformaður og einn úr röðum samstarfsnefndar háskólastigsins.
    Við 6. gr. Eftirfarandi breytingar verði á greininni:
         
    
    1. mgr. orðist svo:
                            Fyrsta námsaðstoð skal aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur á yfirstandandi missiri.
         
    
    Í 4. mgr. falli niður orðin „ásamt vöxtum“.
         
    
    6. mgr. falli brott.
    Við 7. gr. Í stað 3.–5. mgr. komi fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Endurgreiðsla lána hefst þremur árum eftir námslok en sjóðstjórnin skal skilgreina nánar hvað telja beri námslok í þessu sambandi.
                  Ári eftir námslok skal námsmanni tilkynnt upphæð heildarskuldar og sú vísitala sem samsvarar raungildi hennar.
                  Endurgreiðslur fara fram á grundvelli reglna sem giltu á þeim tíma er námsmaður undirritaði einstök skuldabréf.
                  Ábyrgð ábyrgðarmanns skv. 6. gr. getur fallið niður þegar fyrsta greiðsla hefur að fullu verið innt af hendi, enda setji lánþegi aðra tryggingu fyrir lánum sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi.
    Við 8. gr. Greinin orðist svo:
                  Árleg endurgreiðsla af skuldabréfi skv. 3. mgr. 7. gr. ákvarðast í tvennu lagi. Annars vegar er föst greiðsla sem innheimt er á fyrri hluta ársins og hins vegar er viðbótargreiðsla sem innheimt er á síðari hluta ársins og er háð tekjum fyrra árs.
                  Föst ársgreiðsla er 34.000 kr. miðað við lánskjaravísitölu 3.205 nema eftirstöðvar láns, ásamt verðbótum, séu lægri. Þessi upphæð breytist á hverju ári í hlutfalli við lánskjaravísitölu 1. janúar hvers árs.
                  Viðbótargreiðsla miðast við ákveðinn hundraðshluta af útsvarsstofni næsta árs á undan endurgreiðsluári. Hundraðshluti þessi er 4% af árstekjum, allt að upphæð 1.200.000 kr. miðað við lánskjaravísitölu 3.205, en af tekjum umfram þá upphæð er hundraðshlutinn 6%.
                  Hundraðshlutinn, sem ákvarðar hámark árlegrar endurgreiðslu skv. 3. mgr., skal margfaldaður samkvæmt hlutfallslegri breytingu á lánskjaravísitölu frá 1. júlí á tekjuöflunarári til 1. júlí á endurgreiðsluári.
                  Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða að öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lánþega, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.
                  Lánþegi, sem sækir um undanþágu skv. 5. mgr., skal leggja fyrir sjóðstjórn ítarlegar upplýsingar um eignir sínar, lífeyri og önnur atriði er stjórnin telur máli skipta.
                  Heimilt er að endurgreiða lán örar en mælt er fyrir í þessari grein. Lánþega ber á hverjum gjalddaga að greiða kostnað af innheimtu hverrar greiðslu.
    Við 9. gr. Greinin orðist svo:
                  Hverri árlegri endurgreiðslu skal skipt á höfuðstól og verðbætur í hlutfalli, annars vegar við lánskjaravísitölu við lántöku, sbr. 1. mgr. 7. gr., og hins vegar hækkun vísitölu fram að þeim tíma þegar endurgreiðsla er innt af hendi.
                  Endurgreiðslur, sem falla í gjalddaga eftir að lánþegi andast, falla sjálfkrafa niður.
                  Endurgreiðslur eru lögtakskræfar ef um vanskil er að ræða. Sama máli gegnir um eftirstöðvar námslána sem felld eru í gjalddaga skv. 11. gr.
    Við 15. gr. Orðin „og með lántökugjöldum, sbr. 6. gr.“ í 2. mgr. falli brott.
    Við 16. gr. 3. mgr. orðist svo:
                  Sjóðstjórn er heimilt, ef hagsmunasamtök námsmanna óska eftir, að draga félagsgjald frá láni nema fram komi í lánsumsókn ósk um að það sé ekki gert.