Ferill 203. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 203 . mál.


794. Nefndarálitum frv. til l. um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur fjallað allrækilega um frumvarpið. Umsagnir bárust frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Grasagarðinum í Reykjavík, Hafrannsóknastofnun, Háskóla Íslands, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun Norðurlands, Náttúrugripasafni Vestmannaeyja, Náttúrugripasafni Neskaupstaðar, Náttúruverndarráði, Orkustofnun, Rannsóknaráði ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, veiðimálastjóra og Vísindaráði.
    Nefndin leggur í meginatriðum til þrjár breytingar á frumvarpinu:
    Í fyrsta lagi er lagt til að í nýrri grein verði ítarleg ákvæði um tengsl Náttúrufræðistofnunar við hagsmunaaðila sem og aðra. Skýrt verði kveðið á um það að stofnuninni verði heimilt að framkvæma rannsóknir gegn greiðslu sem falla undir verkefnasvið hennar. Einnig er lagt til að kveðið verði á um það í lagatexta, en ekki einungis í skýringum með frumvarpinu, að stofnunin geti veitt viðtöku gjöfum frá þeim sem ekki eru hagsmunatengdir henni. Lagt er til að ákvæði síðari málsliðar 2. gr. frumvarpsins, um að Náttúrufræðistofnun eigi að vera óháð hagsmunatengdum aðilum, verði 1. málsl. síðari málsgreinar hinnar nýju greinar. Nefndin telur jafnframt nauðsynlegt að kveða á um það í lagatextanum að umhverfisráðherra skeri úr ágreiningi um það hvort sá sem vill færa Náttúrufræðistofnun gjöf sé hagsmunatengdur stofnuninni eða ekki og gerir því tillögu þar um. Í tengslum við tilfærslu ákvæðis síðari málsliðar 2. gr. leggur nefndin til að fyrri málslið 2. gr. og 3. gr. verði steypt saman í eina grein.
    Önnur breytingin, sem nefndin leggur til, er að ráðherra geti heimilað stofnun seturs að fenginni umsögn stjórnar Náttúrufræðistofnunar í stað þess að hann sé bundinn tilmælum stjórnarinnar, sbr. 3. gr. frumvarpsins.
    Að lokum er lagt til að gildistaka laganna verði 1. janúar 1993. Með því gefst ráðrúm til nauðsynlegs undirbúnings vegna nýs fyrirkomulags stofnunarinnar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem tillaga er gerð um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 14. apríl 1992.Gunnlaugur Stefánsson,

Tómas Ingi Olrich,

Árni M. Mathiesen,


form.

frsm.

með fyrirvara.Valgerður Sverrisdóttir.

Hjörleifur Guttormsson.

Kristín Einarsdóttir.Árni R. Árnason.

Sigríður Jóhannesdóttir.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.