Ferill 58. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 58 . mál.


826. Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Á fundi hennar kom Þorsteinn A. Jónsson, deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu. Umsagnir bárust frá barnaverndarráði, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og sakadómi Reykjavíkur. Enn fremur var stuðst við umsagnir er bárust á 113. löggjafarþingi frá Dómarafélagi Íslands, Sýslumannafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Kvennaráðgjöfinni, Kvennaathvarfinu, Stígamótum, Sálfræðingafélagi Íslands, Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa, Geðlæknafélagi Íslands og Vernd.
    Frumvarp þetta felur í sér breytingar á XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um skírlífisbrot. Mál þessi hafa verið til umfjöllunar um þó nokkurn tíma. Í frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp heitið „Kynferðisbrot“ á kaflanum í stað „Skírlífisbrot“. Helstu breytingar, sem lagðar eru til í frumvarpinu, eru í fyrsta lagi að ákvæði kaflans nái jafnt til karla sem kvenna í samræmi við breytt viðhorf í þjóðfélaginu og réttarþróun í öðrum löndum. Í öðru lagi taki ákvæði kaflans til athafna samkynja persóna eftir því sem við á. Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér að svokölluð „önnur kynferðismök“, sem kveðið er á um í 202. gr. almennra hegningarlaga, verði lögð að jöfnu við samræði. Er þetta mjög mikilvægt nýmæli. Í fjórða lagi er nýmæli í frumvarpinu um kynferðislega áreitni sem er háttsemi sem ekki fellur undir hefðbundið samræði eða „önnur kynferðismök“.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Lagt er til að 2. gr. verði breytt þannig að á ný verði tekið upp 1 árs refsilágmark fyrir nauðgun og að refsihámarkið verði 16 ár. Í samræmi við þessa tillögu er lagt til að 2. mgr. verði felld brott. Þetta er gert þar sem ástæða þykir til að óttast, m.a. með hliðsjón af þeim umsögnum sem borist hafa, að sú breyting, sem lögð er til í frumvarpinu, leiði til refsilækkunar almennt fyrir nauðgunarbrot. Samkvæmt breytingartillögunni verður greinin svipuð núgildandi grein með þeim breytingum þó að ákvæðin verða ekki kynbundin, önnur kynferðismök eru lögð að jöfnu við samræði og ekki er lengur gert að skilyrði að ofbeldi eða hótun um það veki ótta um líf, heilbrigði eða velferð viðkomandi. Enn fremur er lagt til að orðið „manneskja“ falli brott og í stað þess komi orðið: maður. Í íslensku máli tekur orðið maður bæði til karla og kvenna og þykir ekki fara vel á því í lagatexta að nota orðið manneskja.
    Lögð er til sú breyting við 3. gr. að orðið: maður komi í stað orðsins „manneskja“, sbr. skýringar hér að framan.
    Lögð er til sú breyting við 4. gr. að þeir sem eru í hjónabandi eða óvígðri sambúð njóti einnig refsiverndar þegar slík misneyting á sér stað sem í greininni er kveðið á um. Ljóst þykir þó að í mörgum tilvikum getur verið um erfiða sönnunaraðstöðu að ræða, ekki síst ef meint brot er talið eiga sér stað í hjónabandi eða óvígðri sambúð.
    Lagt er til að 5. gr. verði breytt vegna þess að hefð er fyrir því að orðið vistmaður á stofnun taki til beggja kynja.
    Lagt er til að bætt verði inn í 6. gr. orðunum „skjólstæðingur í trúnaðarsambandi“. Þar er t.d. átt við ef læknar eða aðrar heilbrigðisstéttir eða sálfræðingar misnota samband sitt við sjúkling, prestur við syrgjanda, kennari við nemanda, yfirmaður við undirmann o.s.frv. með þeim hætti sem í greininni segir. Enn fremur er bætt við ákvæði um kynferðislega áreitni. Í 8.–10. gr. frumvarpsins eru ákvæði um kynferðislega áreitni gagnvart börnum en ekki eru sambærileg ákvæði um slíka áreitni gagnvart fullorðnum og er því þess vegna bætt í greinina.
    Lögð er til sú breyting á 7. gr. að orðið: maður komi í stað orðsins „manneskja“, sbr. skýringar hér að framan.
    Lagt er til að í 9. gr. verði refsiramma breytt til samræmis við 8. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu er refsirammi lægri þegar um er að ræða brot gagnvart kjörbörnum, fósturbörnum o.s.frv. en þegar kynferðisbrot beinist að eigin börnum eða öðrum niðjum. Ekki þykir ástæða til þess að hafa þennan mun á refsingum og er því lögð til áðurgreind breyting.
    Lagt er til að refsirammi í 10. gr. verði hækkaður til samræmis við ákvæði núgildandi laga. Hætta þykir á því að sú lækkun refsiramma, sem í frumvarpinu felst, verði túlkuð með þeim hætti að ekki verði litið jafnalvarlega á þessi brot og áður.
    Lögð er til breyting á 11. gr. vegna þess að tilvísun til andlegs ástands á ekki lengur við þar sem greinin vísar ekki lengur til 195. gr. eins og í gildandi lögum, sbr. 4. gr. frumvarpsins.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 13. gr. Í fyrsta lagi er núverandi 1. mgr. skipt upp í tvær málsgreinar. Í 1. mgr. verði refsiákvæði um þá sem stunda vændi sér til framfærslu og að refsihámark þar verði 2 ára fangelsi, en það er óbreytt frá núgildandi ákvæðum í 181. gr. hegningarlaga. Lagt er til að í 2. mgr. verði flutt ákvæði 1. mgr. um að hafa atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra. Er það gert til að samræmi verði um refsihámark fyrir þau brot er greinir í 2.–4. mgr. Í öðru lagi er lagt til að núverandi 2. mgr. verði breytt til samræmis við breytingartillögu við 1. mgr., þ.e. að í stað orðalagsins „hafa ofan af fyrir sér“ komi: hafa viðurværi sitt af. Í þriðja lagi er 3. mgr. breytt á þann veg að lagt er að jöfnu að stuðla að því að nokkur maður flytjist til landsins og frá því í því skyni að hafa viðurværi sitt af lauslæti. Jafnframt eru gerðar sömu orðalagsbreytingar og í 2. mgr.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum.

Alþingi, 30. apríl 1992.Sólveig Pétursdóttir,

Björn Bjarnason.

Ingi Björn Albertsson.


form., frsm.Jón Helgason.

Ólafur Þ. Þórðarson.

Kristinn H. Gunnarsson,


með fyrirvara.Össur Skarphéðinsson,

Ey. Kon. Jónsson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.