Ferill 198. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 198 . mál.


849. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á sinn fund Indriða H. Þorláksson, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu, Þorvarð Alfonsson, forstjóra Iðnþróunarsjóðs, Braga Hannesson, forstjóra Iðnlánasjóðs, Má Elísson, Svavar Ármannsson og Ólaf Stefánsson frá Fiskveiðasjóði Íslands, Jón Guðbjörnsson og Jóhannes Torfason frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Svein Jónsson og Leif Kr. Jóhannesson frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, Jóhönnu Leópoldsdóttur og Snorra Tómasson frá Ferðamálasjóði, Kristján Ragnarsson, formann LÍÚ, og Svein Hannesson, framkvæmdastjóra Félags íslenskra iðnrekenda.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á frumvarpinu.
    Í fyrsta lagi er lagt til að tvær nýjar málsgreinar bætist við 1. gr. frumvarpsins en í þeim er kveðið á um réttarstöðu opinberra fjárfestingarlánasjóða sem lögin ná til. Samkvæmt tillögunni skulu þeir undanþegnir aðstöðugjaldi og einnig er gert ráð fyrir að lögbundin framlög frá ríki eða sveitarfélagi, svo og aðrar lögbundnar tekjur sjóðanna, teljist ekki til tekjuskattsstofns þeirra.
    Í öðru lagi er lagt til að Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Lánasjóði sveitarfélaga verði bætt við í upptalningu 2. gr. frumvarpsins á þeim sjóðum sem skattskyldan nær ekki til. Einnig er lagt til að í stað „Byggðasjóðs“ standi: Byggðastofnun.
    Í þriðja lagi er nauðsynlegt að breyta gildistökuákvæði frumvarpsins og er lagt til að lögin öðlist þegar gildi.
    Að lokum er lagt til að við frumvarpið bætist tvö ný ákvæði til bráðabirgða er verði 10. og 11. gr. frumvarpsins. Hið fyrra kveður á um að ákvæði um skattskyldu komi ekki til framkvæmda um Iðnþróunarsjóð fyrr en við álagningu 1995. Hið síðara gerir ráð fyrir að skuldaskjöl vegna lánveitinga úr Fiskveiðasjóði Íslands, sem formlega hafa verið ákveðnar fyrir gildistöku laga þessara, skuli undanþegin stimpilgjaldi.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 29. apríl 1992.



Matthías Bjarnason,

Ingi Björn Albertsson.

Sólveig Pétursdóttir.


form., frsm.



Magnús Jónsson.

Vilhjálmur Egilsson.