Ferill 315. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 315 . mál.


857. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Stefánssonar um gjaldþrota einstaklinga.

    Hversu margir einstaklingar voru lýstir gjaldþrota hér á landi á árunum 1987, 1988, 1989, 1990 og 1991?

Ár

   Fjöldi



1987          
426

1988          
549

1989          
547

1990          
1049

1991          
966



    Hve mörg þessara gjaldþrota stöfuðu af því að viðkomandi einstaklingar voru í ábyrgðum fyrir aðra einstaklinga eða fyrirtæki gagnvart bönkum eða öðrum lánastofnunum?
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hversu mörg framangreindra gjaldþrota stafa af ábyrgðum á skuldum annarra, enda tíðkast ekki að málaskrár séu svo ítarlegar að rekja megi uppruna hvers og eins gjaldþrots með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Eftir því sem næst verður komist mun þó fátítt að gjaldþrot einstaklinga stafi af því að þeir hafi verið í ábyrgðum fyrir aðra einstaklinga eða fyrirtæki gagnvart bönkum eða öðrum lánastofnunum.

    Hafði ríkissjóður einhvern beinan kostnað af þessum gjaldþrotum og þá hve mikinn?
    Ef hér er átt við kostnað er leiðir af launagreiðslum til bústjóra og skiptastjóra þá hefur ríkissjóður ekki orðið að greiða slíkan kostnað. Ekki er um neinn annan beinan kostnað við skiptin að ræða.

    Hyggst ríkisstjórnin með lagasetningu eða á annan hátt tryggja betur stöðu ábyrgðarmanna en nú er?
    Eigi er ljóst hvað fyrirspyrjandi á við með orðunum „tryggja betur stöðu ábyrgðarmanna“. Ábyrgð nefnist það þegar maður skuldbindur sig til að greiða skuld annars manns ef sá greiðir hana ekki sjálfur. Á grundvelli meginreglunnar um samningsfrelsi er mönnum það í sjálfsvald sett hvort þeir taka á sig slíkar ábyrgðir eður ei. Hér má þó vekja athygli á ákvæðum í III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, um misneytingu og nauðung.
    Ein meginstoð viðskiptalífs okkar er að menn geti almennt treyst á skuldbindingargildi löggerninga. Verði ábyrgð ábyrgðarmanna á einhvern hátt takmörkuð veikir það lánstraust manna og getur þannig orðið til þess að grafa undan grundvelli viðskiptalífsins.