Ferill 155. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 155 . mál.


878. Nefndarálit



um till. til þál. um athugun á vistfræðilegri þróun landbúnaðar á Íslandi.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Umsagnir bárust frá Búnaðarfélagi Íslands, Landgræðslu ríkisins, mengunarvörnum Hollustuverndar ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Stéttarsambandi bænda. Þessir aðilar mæla allir með samþykkt tillögunnar.
    Nefndin telur að hér sé um ákaflega mikilvægt mál að ræða og nauðsynlegt sé að vanda til þeirrar úttektar sem lagt er til að gerð verði. Á undanförnum árum hefur talsvert starf verið unnið til að bæta vistfræðilega þróun íslensks landbúnaðar og í undirbúningi eru mikilvæg áform í þessum efnum. Má minna á að á 112. löggjafarþingi samþykkti Alþingi þingsályktun um gerð áætlunar til að stöðva eyðingu jarðvegs og gróðurs og á 113. löggjafarþingi var þingsályktun um kortlagningu gróðurlendis Íslands samþykkt.
    Við þá úttekt, sem tillagan gerir ráð fyrir, þarf að meta hvaða kröfur beri að gera til íslensks landbúnaðar með tilliti til sjálfbærrar þróunar. Sjálfsagt er að styðjast við yfirlýsingu alþjóðaráðstefnu um umhverfismál og sjálfbæra þróun — lykilhlutverk bænda þegar þær kröfur, sem gera á til landbúnaðarins, eru metnar. Ráðstefnan var haldin í Reykjavík í október 1991 af Alþjóðasambandi búvöruframleiðenda. Einnig má ætla að ráðstefna Sameinuðu þjóðanna, sem haldin verður í Brasilíu í júní nk., veiti mikilvæga leiðsögn í þessum efnum.
    Þá þarf einnig að meta hvort úttektin nái einungis til nánasta umhverfis landbúnaðarins eða hvort tillit sé tekið til umhverfisþátta eins og loftmengunar, lofthjúpsbreytinga og áhrifa mengunar í innfluttum aðföngum á íslenskan landbúnað. Um það má finna athyglisverðar ábendingar í umsögn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins um tillöguna.
    Vegna þess hve skammur tími er til stefnu áður en ráðstefna Sameinuðu þjóðanna hefst má telja útilokað að þessi athugun geti nýst við undirbúning íslenskra stjórnvalda að ráðstefnunni. Því leggur nefndin til að síðari málsgrein tillögunnar falli brott.
    Mælt er með samþykkt tillögunnar með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Síðari málsgrein tillögugreinarinnar falli brott.

    Kristín Ástgeirsdóttir var fjarstödd afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. maí 1992.



Egill Jónsson,

Sigbjörn Gunnarsson.

Guðni Ágústsson.


form., frsm.



Eggert Haukdal.

Einar K. Guðfinnsson.

Árni M. Mathiesen.



Sigurður Hlöðvesson.

Valgerður Sverrisdóttir.