Ferill 435. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 435 . mál.


904. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 33 22. apríl 1947, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Grímsneshreppi kirkjujörðina Stóru-Borg, með síðari breytingum.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið en það er flutt að ósk hreppsnefndar Grímsneshrepps. Með lögum nr. 33/1947 fór fram sala á jörðinni Stóru-Borg í Grímsneshreppi til hreppsins. Við meðferð málsins á Alþingi var gerð sú breyting á upphaflegu frumvarpi um söluna að ríkissjóður hefði forkaupsrétt að jörðinni og þá á fasteignamatsverði. Breytingin var gerð til samræmis við hliðstæðar lagaheimildir um sölu ríkisjarða á þeim tíma.
    Þegar Grímsneshreppur seldi jörðina árið 1974 giltu þær kvaðir sem settar voru á endursölu hennar með nýsamþykktum lögum, nr. 70/1974, um breytingu á lögum 33/1947. Fólust þær í því að hreppnum og ríkissjóði var tryggður forkaupsréttur að jörðinni á fasteignamatsverði. Ætla má að sú breyting hafi verið gerð samkvæmt vilja sveitarstjórnar Grímsneshrepps.
    Tveimur árum eftir að lögin um sölu Stóru-Borgar í hendur núverandi ábúenda hennar voru samþykkt tóku gildi jarðalögin, nr. 65/1976. Jafnframt gilti sú regla til ársins 1984 að þjóð- og kirkjujarðir voru seldar á fasteignamatsverði til ábúenda, sbr. 47. og 49. gr. laga nr. 102/1962, um ættaróðul, ættarjarðir, erfðaábúð og sölu þjóð- og kirkjujarða. Nú gilda jarðarlög um forkaupsrétt sveitarfélaga og ríkis að jörðum og í 38. gr. þeirra, sbr. lög nr. 90/1984, er ákveðið hvernig söluverð jarðanna til ábúenda þeirra er fundið. Náist ekki samkomulag um verð milli kaupanda og seljanda skal mat dómkvaddra manna ráða. Enn fremur kveður 38. gr. jarðalaga á um forkaupsrétt ríkissjóðs á jörðum eða jarðarhlutum sem hann hefur selt. Hér er því vissulega vel fyrir því séð að réttur ríkissjóðs og sveitarfélaganna í landinu sé tryggður við sölu jarðeigna. Eðlilegt er að þær kvaðir, sem jarðalögin ákveða varðandi eigendaskipti á jörðum, taki að jöfnu til jarðeigna í landinu. Þess vegna mælir nefndin með því að frumvarpið verði samþykkt með breyttri uppsetningu sem kveður á um afnám sérstakra lögbundinna kvaða við sölu jarðarinnar og flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Eggert Haukdal tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. maí 1992.



Egill Jónsson,

Sigbjörn Gunnarsson.

Guðni Ágústsson.


form., frsm.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.

Árni M. Mathiesen.



Sigurður Hlöðvesson.

Einar K. Guðfinnsson.