Ferill 464. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 464 . mál.


909. Nefndarálit



um frv. til l. um yfirskattanefnd.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Á fund hennar komu Indriði H. Þorláksson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, Sigurður P. Sigurðsson, löggiltur endurskoðandi, Sigurður H. Pálsson, löggiltur endurskoðandi, og Gunnar Jóhannsson og Ólafur H. Ólafsson frá ríkisskattanefnd. Umsagnir bárust frá BHMR, BSRB, Félagi löggiltra endurskoðenda, Lögmannafélagi Íslands, ríkisskattanefnd, ríkisskattstjóra og Verslunarráði Íslands.
    Frumvarpi þessu er ætlað að hraða málsmeðferð skattamála sem kærð verða og jafnframt er stefnt að því að afgreiða mikinn fjölda mála sem bíða úrskurðar. Frumvörp svipaðs efnis hafa verið lögð fram áður, nú síðast á haustþingi 1991, en ekki hlotið afgreiðslu. Nefndin telur ekki forsvaranlegt að óvissa ríki um stöðu æðsta úrskurðaraðila um skattkærur á stjórnsýslustigi. Því er nauðsynlegt að ákveða hver framtíðarskipan þessara mála eigi að vera. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að yfirskattanefnd muni starfa að mörgu leyti eins og dómstóll. Þar er einnig bent á að unnt verði að breyta lagaákvæðum um nefndina þannig að skjóta mætti úrskurðum hennar beint til Hæstaréttar. Frá Lögmannafélagi Íslands barst ítarleg umsögn þar sem bent var sérstaklega á þau atriði í frumvarpinu sem væru ekki í samræmi við réttarfarsreglur um dómstóla. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á þeirri stöðu ríkisskattanefndar eða arftaka hennar, yfirskattanefndar, að hún sé æðsti úrskurðarvaldshafi á stjórnsýslustigi í meðferð skattkærna og ekki er gert ráð fyrir breytingu á stöðu nefndarinnar gagnvart dómstólum. Málsmeðferðarreglum fyrir nefndinni hefur verið þokað nær málsforræði aðila þótt enn sé jafnframt að hluta stuðst við rannsóknarreglu réttarfars. Nefndin telur á þessu stigi ekki rétt að gera frekari breytingar á málsmeðferðarreglum og að ekki sé rétt að fresta afgreiðslu málsins vegna þess atriðis. Nauðsynlegt er að afgreiða málið nú. En sjálfsagt er að endurskoða það í ljósi þeirrar reynslu sem fæst af yfirskattanefnd og meðferð mála fyrir henni með eðlilegum hætti og þá jafnframt að breyta lagaákvæðum um hana ef þörf krefur. Þá telur nefndin brýna nauðsyn vera á að endurskoða meðferð skattkærna á fyrra kærustiginu.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Lagt er til að lög um bókhald falli niður úr upptalningu laga sem úrskurðarvald yfirskattanefndar nær til, enda ekki um álagningu gjalda að ræða samkvæmt þeim lögum.
    Lagt er til að sveitarfélögum verði einnig heimilt að skjóta til yfirskattanefndar kæruúrskurðum skattstjóra ef þeir varða hagsmuni sveitarfélagsins. Breytingartillögur við 3., 5. og 6. gr. lúta að þeirri nýbreytni.
    Rétt þykir að yfirskattanefndin öll meti hvort þörf sé á sérstökum flutningi máls fyrir nefndinni en ekki einungis formaður hennar og er því lagt til að 3. mgr. 7. gr. verði breytt til samræmis við það.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að í yfirskattanefnd eigi sæti sex menn sem hafi nefndarstarfið að aðalstarfi. Nefndin telur æskilegt að menn, sem starfa við skattskil, eigi áfram sæti í yfirskattanefnd þótt fallast megi á að óæskilegt sé að þeir sem ekki hafa starf í nefndinni að aðalstarfi skipi meiri hluta hennar eins og nú er um ríkisskattanefnd. Því leggur nefndin til að fjórir af sex mönnum í ríkisskattanefnd hafi starfið að aðalstarfi og að formaður og varaformaður nefndarinnar komi úr þeirra hópi. Tveir nefndarmanna munu hins vegar vera í hlutastarfi verði tillaga nefndarinnar samþykkt. Laun þeirra, sem hafa setu í yfirskattanefnd að aðalstarfi, eru ákveðin af Kjaradómi og er óþarft að taka það fram í frumvarpinu þar sem sérstök lög gilda um Kjaradóm.
    Lagt er til að í 10. gr. frumvarpsins verði ákveðið að formaður eða varaformaður yfirskattanefndar ákveði þóknun til sérfróðra aðila sem kunna að verða kallaðir til starfa fyrir nefndina.
    Lagt er til að 18. gr. verði breytt þannig að umboðsmaður skattaðila fái sent eintak af úrskurði yfirskattanefndar en ekki einungis skattaðilinn og skattstjórar.
    Önnur meginbreytingin, sem nefndin leggur til, lýtur að 19. gr. frumvarpsins. Í stað fyrra ákvæðis greinarinnar er lagt til að komi nýtt ákvæði er fjalli um þagnarskyldu starfsmanna yfirskattanefndar.
    Lagt er til að lög um yfirskattanefnd öðlist gildi 1. júlí. Einnig er lagt til að yfirskattanefnd ljúki afgreiðslu þeirra mála sem ríkisskattanefnd hefur ekki úrskurðað um á fyrstu sex mánuðunum sem hún starfar. Þá er gerð tillaga um að nýrri málsgrein verði bætt við 23. gr. er kveði á um að yfirskattanefnd taki við því hlutverki sem löggjöfin ætlar ríkisskattanefnd.
    Að lokum leggur nefndin til að inn komi tvö ný ákvæði til bráðabirgða er kveður á um stöðu þeirra sem starfa hjá ríkisskattanefnd eða eru skipaðir til starfa við hana í hlutastarfi. Ekki verður um breytingu á högum starfsmanna ríkisskattanefndar að ræða. Þörf er á heimild til þess að framlengja skipunartíma þeirra sem eru í hlutastarfi í ríkisskattanefnd fram að gildistöku laga um yfirskattanefnd. Þá er lögð til breyting á síðara bráðabirgðaákvæði frumvarpsins þannig að nefndarmenn í yfirskattanefnd verði í fyrsta sinn skipaðir þannig að tveir nefndarmenn verði skipaðir til tveggja ára, tveir til fjögurra ára og tveir til sex ára, í stað fjögurra, sex og átta ára.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 11. maí 1992.



Matthías Bjarnason,

Halldór Ásgrímsson.

Steingrímur J. Sigfússon.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Kristín Ástgeirsdóttir.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.



Árni M. Mathiesen.

Össur Skarphéðinsson.

Árni R. Árnason.