Ferill 123. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 123 . mál.


913. Nefndarálit



um frv. til laga um umboðsmann barna.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og bárust henni umsagnir frá eftirtöldum aðilum: barnaverndarráði, Félagi íslenskra barnalækna, Kvenfélagasambandi Íslands, sifjalaganefnd og umboðsmanni Alþingis. Enn fremur studdist nefndin við umsagnir er bárust á 113. löggjafarþingi um samhljóða frumvarp frá Sálfræðingafélagi Íslands, Foreldrasamtökunum, Þroskahjálp, Barnaheillum, Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa, Barnavinafélaginu Sumargjöf, Félagi íslenskra sérkennara, Félagi þroskaþjálfa, Fóstrufélagi Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands og fjármálaráðuneytinu.
    Frumvarpið fjallar um málefni sem er athyglisvert og kanna þarf nánar. Í því sambandi má nefna að kanna verður tengsl málsins við frumvarp til laga um vernd barna og ungmenna, 422. mál, sem nú er til umfjöllunar í félagsmálanefnd. Þarf m.a. að athuga hvort verkefni þau, sem frumvörpin mæla fyrir um, skarist. Enn fremur þarf að athuga frumvarp þetta vandlega með hliðsjón af lögum um umboðsmann Alþingis, hvort fyrirhugað hlutverk umboðsmanns barna muni rekast á við hlutverk hins fyrrnefnda. Fleira mætti nefna og er það skoðun meiri hluta nefndarinnar að vel færi á því að sifjalaganefnd tæki mál þetta til rækilegrar skoðunar.
     Í ljósi þess sem fram hefur komið og í trausti þess að um málið verði fjallað frekar er lagt til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Anna Ólafsdóttir Björnsson, Eyjólfur Konráð Jónsson og Ólafur Þ. Þórðarson voru fjarstödd afgreiðslu málsins.

Alþingi, 13. maí 1992.



Sólveig Pétursdóttir,

Björn Bjarnason,

Kristinn H. Gunnarsson.


form.

frsm.



Jón Helgason.

Björn Ingi Bjarnason.