Ferill 430. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 430 . mál.


935. Nefndarálitum frv. til l. um gjald vegna ólögmæts sjávarafla.

Frá sjávarútvegsnefnd.    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Á fund nefndarinnar kom Árni Kolbeinsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu. Umsagnir bárust frá eftirtöldum aðilum: Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Hafrannsóknastofnun, Íslenskum sjávarafurðum hf., Landssambandi smábátaeigenda, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum fiskvinnslustöðva, Sýslumannafélagi Íslands, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Vélstjórafélagi Íslands.
    Nefndin leggur til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Lögð er til sú breyting við 5. gr. að vald til þess að krefjast upplýsinga og gagna frá þeim sem eftirlit beinist að, og öðrum sem taldir eru í greininni, verði í höndum Fiskistofu í stað þess að fá eftirlitsmönnum stofnunarinnar það beint. Enn fremur er lagt til að 3. mgr. 5. gr. falli brott þar sem kveðið er á um aðgang eftirlitsmanna að gögnum, upplýsingum og aðstoð opinberra stofnana, viðskiptabanka, sparisjóða og lánastofnana, en hann þykir of rúmur.
    Lagt er til að 4. mgr. 10. gr. falli brott en þar er kveðið á um heimild ráðherra til að fella niður veiðiheimildir útgerðarmanns eða skipa sem hann gerir út vegna vangoldinna gjalda skv. 1. gr. frumvarpsins. Hér er um mjög harkalegar aðgerðir að ræða sem bitna ekki aðeins á útgerð heldur einnig á sjómönnum og jafnvel landverkafólki.
    Lögð er til breyting á 12. gr. í samræmi við breytingartillögu við 5. gr.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 13. maí 1992.Matthías Bjarnason,

Össur Skarphéðinsson.

Árni R. Árnason.


form., frsm.Guðmundur Hallvarðsson.

Árni Johnsen.

Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara.Jóhann Ársælsson,

Stefán Guðmundsson,

Jón Helgason,


með fyrirvara.

með fyrirvara.

með fyrirvara.