Ferill 534. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 534 . mál.


960. Frumvarp til laga



um viðauka við lög nr. 39 15. maí 1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)



1. gr.


    Innstæðum á reikningum einstakra framleiðenda í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins 1. júní 1992 skal varið til greiðslu skulda þeirra eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum, sbr. þó 2. mgr.
     Af innstæðum á einstökum reikningum í deild fyrir óunnar botnfiskafurðir skulu 30% renna til lífeyrissjóða sjómanna eins og nánar er kveðið á um í 5. gr. laga þessara. Á sama hátt skulu renna til lífeyrissjóða sjómanna 32,5% af þeim hluta innstæðna á reikningum í deild fyrir unnar botnfiskafurðir sem myndast hafa vegna útflutnings afurða vinnsluskipa.

2. gr.


    Óskiptum innstæðum á sérstökum reikningum Verðjöfnunarsjóðs vegna saltfiskafurða og vegna humars, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, skal skipt niður á framleiðendur í hlutfalli við þann þátt sem inngreiðslur vegna afurða einstakra framleiðenda áttu í myndun innstæðnanna. Áður en til skiptingar kemur samkvæmt þessari málsgrein skal 34 m.kr. af reikningi vegna humars og 16 m.kr. af reikningi vegna saltfiskafurða ráðstafað til lífeyrissjóða sjómanna samkvæmt ákvæðum 5. gr. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um framkvæmd þessarar málsgreinar.
     Innstæður, sem skipt hefur verið skv. 1. mgr., skulu ganga til greiðslu skulda framleiðanda eftir sömu reglum og innstæður þær sem rætt er um í 1. mgr. 1. gr.
     Innstæður skv. 1. mgr., sem myndaðar hafa verið af félögum sem slitið hefur verið fyrir gildistöku laga þessara með öðrum hætti en sameiningu við önnur félög, skulu renna í óskiptan reikning Verðjöfnunarsjóðs. Sama á við hafi framleiðandi orðið gjaldþrota eftir að innstæða var mynduð eða ekki stundað framleiðslu sjávarafurða til útflutnings síðustu sex árin fyrir gildistöku laga þessara.

3. gr.


    Innstæðum framleiðanda skal varið til greiðslu eftirtalinna skulda þannig að skuldir í hverjum tölulið séu að fullu greiddar áður en kemur til greiðslu skulda í næsta tölulið:
    Afborgana og vaxta af veðskuldum viðkomandi framleiðanda sem hvíla á eignum er tengjast fiskveiðum og fiskvinnslu og gjaldfallnar eru við gildistöku laga þessara. Skuldir, sem tryggðar eru með veði í framleiðsluvörum framleiðanda, falla ekki undir þennan tölulið.
    Skattskulda framleiðanda við ríki og sveitarfélög sem gjaldfallnar eru við gildistöku laga þessara og vaxta af þeim.
    Annarra gjaldfallinna skulda framleiðanda er tengjast fiskveiðum og fiskvinnslu og vaxta af þeim.
    Afborgana og vaxta af skuldum sem um ræðir í 1. tölul. sem falla í gjalddaga fyrir lok ársins 1992.
    Lækkunar höfuðstóls skulda er um ræðir í 1. tölul. enda liggi fyrir samþykki skuldareiganda um greiðslu ógjaldfallins hluta höfuðstóls.
     Hrökkvi innstæða ekki fyrir greiðslu allra skulda í einhverjum þeirra flokka er falla undir 1.–4. tölul. skal henni ráðstafað til greiðslu þeirra í hlutfalli við fjárhæð gjaldfallinna krafna.

4. gr.


    Þeir framleiðendur, sem telja sig falla undir ákvæði þessara laga, skulu fyrir 1. júlí 1992 senda Verðjöfnunarsjóði yfirlit yfir gjaldfallnar afborganir og vexti skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 3. gr., sundurliðuð eftir skuldategund og kröfuhöfum. Jafnframt skulu fylgja yfirlit yfir þær veðskuldir þar sem óskað er greiðslu á ógjaldföllnum höfuðstól skv. 4. og 5. tölul. 1. mgr. 3. gr.
     Verðjöfnunarsjóður skal sannreyna innsendar upplýsingar og inna greiðslur af hendi samkvæmt ákvæðum laga þessara.

5. gr.


    Greiðslur til lífeyrissjóða sjómanna skv. 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. skulu skiptast milli sjóðanna í hlutfalli við iðgjöld sjómanna á fiskiskipaflotanum til einstakra sjóða á árinu 1991.

6. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. laga nr. 39 15. maí 1990 skal ekki inna af hendi greiðslur til Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins vegna útflutnings frá gildistöku laga þessara til 31. desember 1992. Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. sömu laga skal ekki inna af hendi reglulegar greiðslur af verðjöfnunarreikningum sjóðsins vegna útflutnings á sama tímabili.

7. gr.


    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara.

8. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 78 23. desember 1991, um viðauka við lög nr. 39 15. maí 1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á árunum 1990 og 1991 greiddu sjávarútvegfyrirtæki um 2.500 m.kr. til Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins. Er áætlað að inngreiðslur í sjóðinn hafi á árinu 1991, sem var fyrsta heila starfsárs sjóðsins, numið um 3,5% af tekjum botnfiskveiða og -vinnslu. Þessar miklu inngreiðslur stöfuðu af háu verði botnfiskafurða á þessum tveim árum. Þar sem lögum um Verðjöfnunarsjóð var breytt tímabundið um síðustu áramót hafa engar inngreiðslur átt sér stað í sjóðinn á þessu ári. Ef reglum sjóðsins hefði ekki verið breytt hefði komið til inngreiðslna á fyrstu mánuðum þessa árs. Verð á sjávarafurðum hefur hins vegar farið lækkandi og er ekki tilefni til inngreiðslna í neina deild sjóðsins um þessar mundir.
     Á síðustu tveimur missirum hafa orðið mikil umskipti í afkomu sjávarútvegsins sem fyrst og fremst má rekja til þess að nauðsynlegt reyndist að minnka mjög sókn í þorskstofninn. Af þeim sökum er áætlað að verðmæti botnfiskaflans verði um 15–16% minna á yfirstandandi fiskveiðiári en á síðasta ári. Ekki er útlit fyrir að úr rætist með ástand þorskstofnsins á næstu árum þar sem fyrir liggur að nýliðun hans á árunum 1986 til 1990 hefur brugðist og er stærð þessara árganga langt undir meðallagi. Því er ekki að vænta að hægt verði að auka þorskaflann frá því sem nú er næstu fjögur til fimm árin.
     Til að mæta þessum aflasamdrætti hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða til að bæta stöðu sjávarútvegsins. Hefur m.a. verið gripið til almennra ráðstafana til að minnka greiðslubyrði af langtímalánum greinarinnar, stöðvunar inngreiðslna í Verðjöfnunarsjóð og hækkunar á greiðslu úreldingarstyrkja úr Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins. Þá munu niðurskurður ríkisútgjalda, lækkun raunvaxta og nýgerðir kjarasamningar skapa grundvöll fyrir minni verðbólgu hér en í helstu viðskiptalöndum og styrkja þannig samkeppnisstöðu greinarinnar. Einstök sjávarútvegsfyrirtæki hafa enn fremur gripið til margvíslegra hagræðingaraðgerða til að bæta rekstrarafkomuna. Þrátt fyrir þetta er sjávarútvegurinn rekin með halla um þessar mundir. Samkvæmt nýlegri athugun Þjóðhagsstofnunar er áætlað að botnfiskveiðar og -vinnsla hafi verið rekin með um 3,5% halla í janúarmánuði sl. Staða botnfiskvinnslunnar er þó töluvert lakari en meðaltalið og er áætlað að hún hafi verið rekin með rúmlega 8% halla á sama tíma en útgerðin með um 2% hagnaði. Því til viðbótar er sjávarútvegurinn mjög skuldsettur en áætlað er að heildarskuldir hans hafi numið um 95 milljörðum króna um síðustu áramót.
     Með frumvarpi þessu er lagt til að tímabundin breyting verði gerð á lögum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Lagt er til að innstæðum á reikningum einstakra framleiðenda í sjóðnum verði ráðstafað til greiðslu á skuldum þeirra, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Þó er lagt til að 30% af innstæðum á einstökum reikningum í deild fyrir óunnar botnfiskafurðir og 32,5% af þeim hluta innstæðna í deild fyrir unnar botnfiskafurðir, sem myndast hafa vegna afurða vinnsluskipa, verði ráðstafað til lífeyrissjóða sjómanna. Loks er lagt til að óskiptir reikningar vegnar humars og saltfiskafurða, sem mynduðust í tíð Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, verði skipt upp á milli þeirra framleiðenda sem stóðu fyrir inngreiðslum þessara fjármuna. Hlut einstakra framleiðanda verði ráðstafað til greiðslu skulda með sama hætti og innstæðum einstakra framleiðenda sem myndast hafa í tíð Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins. Áður en innstæðum verður skipt á milli einstakra framleiðanda er lagt til að 34 m.kr. af reikningi humars og 16 m.kr. af innstæðum saltfiskafurða, samtals 50 m.kr., verði ráðstafað til lífeyrissjóða sjómanna.
     Gert er ráð fyrir að Verðjöfnunarsjóður annist greiðslu á skuldum einstakra framleiðenda. Einstakir framleiðendur þurfa að senda sjóðnum yfirlit fyrir 1. júlí nk. yfir vanskil veðskulda og annarra skulda sem fjallað er um í 3. gr. frumvarpsins. Sjóðurinn mun staðreyna innsendar upplýsingar og annast greiðslu til einstakra skuldareigenda í samræmi við þá töluröð sem fram kemur í 3. gr. frumvarpsins. Reynist innstæða ekki fyrir hendi til greiðslu allra skulda í einhverjum flokki verður henni ráðstafað í hlutfalli við fjárhæð gjaldfallinna krafna.
     Gera má ráð fyrir að meginhlutinn af innstæðum einstakra framleiðenda gangi til greiðslu vanskila af veðskuldum. Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um heildarvanskil sjávarútvegsins af þessum skuldum en ljóst er að þau eru veruleg. Meginhlutinn af innstæðunum mun því ganga til greiðslu þessara skulda. Reynist inneign framleiðanda hærri en sem nemur vanskilum veðskulda ganga innstæður næst til greiðslu opinberra gjalda við ríkissjóð og sveitarfélög og svo koll af kolli, sbr. 3.–5. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Ekki liggja fyrir upplýsingar um vanskil sjávarútvegsfyrirtækja skv. 2.–3. tölul.
     Þann 13. maí 1992 námu innstæður í deild fyrir unnar botnfiskafurðir rúmlega 2.100 m.kr. Þar af er áætlað að innstæður vegna afurða vinnsluskipa nemi tæpum 340 m.kr. Í deild fyrir óunnar botnfiskafurðir voru innstæður rúmlega 392 m.kr. Á óskiptum reikningi humars námu innstæður um 300 m.kr. króna og saltfiskafurða um 143 m.kr.
     Verði frumvarp þetta að lögum má gera ráð fyrir að tæplega 2.700 m.kr. verði ráðstafað til lækkunar á skuldum þeirra framleiðenda sem mynda innstæður í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins. Auk þess verður um 278 m.kr. ráðstafað til lífeyrissjóða sjómanna. Er lagt til að greiðslum til lífeyrissjóða sjómanna verði skipt milli einstakra lífeyrissjóða í hlutfalli við iðgjöld sjóðanna á árinu 1991.
     Tilgangur þessara tímabundnu breytinga á lögum sjóðsins er að stuðla að því að þau fyrirtæki sem myndað hafa þessar inneignir geti ráðstafað þeim til greiðslu vanskilaskulda og þannig lækkað þann mikla vaxtakostnað sem þeim fylgir. Hér er einungis um tímabundna ráðstöfun að ræða og ekki gerð tillaga um neinar varanlegar breytingar á starfsemi sjóðsins að öðru leyti. Hins vegar er tillagna að vænta um framtíðarskipan sjóðsins nú í sumar frá nefnd sem sjávarútvegsráðherra skipaði sl. haust. Engar ákvarðanir verða því teknar um framtíðarskipan sveiflujöfnunar í sjávarútvegi fyrr en þær tillögur liggja fyrir. Leiði tillögur nefndarinnar til þess að ákvarðanir verði teknar um varanlegar breytingar á skipulagi þessara mála verður frumvarp lagt fram á Alþingi um það efni í haust.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með grein þessari er lagt til að innstæðum á reikningum einstakra framleiðenda í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins verði varið til greiðslu skulda þeirra eins og nánar er kveðið á um í 3. gr. frumvarpsins. Samkvæmt lögum nr. 39/1990 teljast innstæður á verðjöfnunarreikningum sjóðsins eign hans en eru bundnar til verðjöfnunar á afurðum þess framleiðanda er inneign myndaði. Er hér lagt til að ráðstöfun þeirra til greiðslu tiltekinna skulda framleiðenda verði heimiluð enda þótt lækkun afurðaverðs gefi ekki tilefni til útborgunar eftir almennum reglum sjóðsins. Ástæða þess er hinn mikli rekstrarvandi sem sjávarútvegurinn stendur nú frammi fyrir vegna aflasamdráttar eins og nánar er rakið í almennum athugasemdum. Frá því að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins hóf störf 1. júní 1990 hefur komið til innborgunar í þremur deildum sjóðsins. Er það deild fyrir óunnar botnfiskafurðir, deild fyrir unnar botnfiskafurðir og hörpudiskdeild. Voru innstæður í þessum deildum samtals 2.518.324.383 kr. 13. maí 1992 en reikningarnir 1.150 talsins en fjöldi eigenda mun minni. Það eru þessar innstæður sem ráðstafað skal skv. 1. gr. til greiðslu skulda framleiðanda. Við þá ráðstöfun ber þó að taka tillit til þess að inngreiðslur vegna afurða frystitogara og inngreiðslur í deild fyrir óunnar botnfiskafurðir voru dregnar frá heildaraflaverðmæti skips áður en til skipta kom og höfðu því bein áhrif á hlutaskipti. Er því lagt til að sá hluti þessara innstæðna, sem bein áhrif hafði á skiptakjör sjómanna, gangi til lífeyrissjóða sjómanna og komi þar með sjómannastéttinni í heild að gagni. Það hlutfall er hér um ræðir er 32,38% af innstæðum er myndast hafa vegna frystitogara en nokkuð lægra af innstæðum í deild fyrir óunnar botnfiskafurðir eða 28,87% þegar togarar eiga í hlut en 31,6% fyrir báta. Ekki liggur fyrir nákvæmt yfirlit um hvernig ísfisksölur erlendis skiptast milli þessara skipagerða en öruggt er að ekki er á sjómenn hallað ef til lífeyrissjóða þeirra er ráðstafað 30% af heildarinnstæðum í deild fyrir óunnar botnfiskafurðir. Samtals verða það því um 2.241 m.kr. sem til greina koma til ráðstöfunar upp í skuldir framleiðenda samkvæmt þessari grein en u.þ.b. 228 m.kr. munu ganga til lífeyrissjóða sjómanna eins og nánar er kveðið á um í 5. gr.

Um 2. gr.


    Þegar Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins var settur á stofn vorið 1990 var kveðið svo á að innstæður í deildum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, sem þá var lagður niður, skyldu færðar á sérstaka reikninga í nýja sjóðnum og skyldi þeim varið til greiðslu verðbóta á afurðir viðkomandi deildar eftir því sem verðjöfnunartilefni skapaðist samkvæmt reglum nýja sjóðsins, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 39/1990. Langstærstur þessara biðreikninga er reikningur humars en á honum voru 300.318.656 kr. miðað við 13. maí 1992. Næstur kom reikningur saltfiskafurða en þar var innstæða 143.196.954 kr. miðað við sama tíma. Könnun hefur leitt í ljós að unnt er að rekja þessar innstæður til innborgana vegna afurða einstakra framleiðenda í gildistíð eldri laga. Er með þessari grein lagt til að innstæðum á þessum reikningum verði skipt niður á einstaka framleiðendur og þeim varið til greiðslu tiltekinna skulda þeirra með sama hætti og innstæðum á reikningum einstakra framleiðenda, sbr. 1. gr. Þá er lagt til að áður en til skiptingar kemur verði teknar 16 m.kr. af biðreikningi saltfiskdeildar og 34 m.kr. af biðreikningi humardeildar og þeim ráðstafað til lífeyrissjóða sjómanna samkvæmt nánari ákvæðum 5. gr.
     Skipting þessara reikninga milli einstakra framleiðanda skal gerð í hlutfalli við þann þátt sem inngreiðslur einstakra framleiðenda áttu í myndun innstæðnanna. Er ráðherra ætlað að útfæra þessa meginreglu nánar með reglugerð en ljóst má vera að fjölmörg álitamál koma upp við slíka skiptingu innstæðna sem orðið hafa til á löngum tíma við mismunandi aðstæður, t.d. varðandi vaxtareikning, tillit til verðbreytinga og hvernig með skuli fara þegar bæði hefur verið um inn- og útgreiðslur að ræða á myndunartíma reikninganna.
     Í 3. mgr. er kveðið á um við hvaða aðstæður innstæður skulu renna í óskiptan reikning Verðjöfnunarsjóðs. Eru það sömu tilvik skv. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1990.

Um 3. gr.


    Í þessari grein er gerð tillaga um í hvaða röð innstæður á reikningum einstakra framleiðenda ganga til greiðslu á skuldum þeirra. Er skuldunum skipt upp í fimm flokka og skal að fullu staðið við greiðslur í hverjum flokki áður en kemur til greiðslna í næsta flokki. Hrökkvi innstæða ekki fyrir greiðslu allra skulda í einhverjum fjögurra fyrstu flokkanna skal henni ráðstafað til greiðslu þeirra í hlutfalli við fjárhæð gjaldfallinna krafna. Fyrst skal innstæðum varið til greiðslu gjaldfallinna afborgana vaxta af veðskuldum framleiðanda. Vegna þeirra er blandaðan rekstur stunda, svo og vegna einstaklinga í atvinnurekstri, er nauðsynlegt að takmarka greiðslu við skuldir er hvíla á eignum er tengjast fiskveiðum og fiskvinnslu. Er líklegt að langstærsti hluti innstæðna Verðjöfnunarsjóðs gangi til greiðslu þessara skulda. Skuldastaða einstakra fyrirtækja er þó að sjálfsögðu mjög mismunandi að þessu leyti þannig að nokkurt fé ætti að verða eftir hjá ýmsum aðilum til greiðslu skulda í síðari flokkunum. Það er hins vegar útilokað að áætla fjárhæðir í þeim efnum.
     Greiðslur til lækkunar höfuðstóls skulda skv. 5. tölul. eru annars eðlis en greiðslur skv. 1.–4. tölul. Er það á valdi framleiðanda að fengnu samþykki skuldareiganda hvaða skuldir hann kýs að greiða á grundvelli þessa töluliðar.

Um 4. gr.


    Gert er ráð fyrir að Verðjöfnunarsjóður annist alla framkvæmd greiðslna samkvæmt lögum þessum og fé renni ekki um hendur framleiðenda heldur beint frá sjóðnum til einstakra kröfuhafa. Er því lagt til að þeir framleiðendur, sem telji sig falla undir lögin, skuli fyrir 1. júlí senda sjóðnum tilskildar upplýsingar. Ætti hálfur annar mánuður að duga en miklu skiptir að framkvæmdin gangi hratt fyrir sig. Framkvæmd Verðjöfnunarsjóðs mun að sjálfsögðu byggjast á upplýsingum framleiðanda um skuldastöðu en sjóðnum er ætlað að sannreyna þær upplýsingar eftir því sem ástæða þykir til. Hins vegar er ljóst að sjóðurinn getur ekki haft uppi á skuldum eða kröfuhöfum sem skuldari lætur ógetið í yfirliti sínu og getur því ekki borið ábyrgð á því að einhverjir verði af greiðslu af þeim ástæðum.

Um 5. gr.


    Með grein þessari er gert ráð fyrir að hlutur sjómanna í útgreiðslum Verðjöfnunarsjóðs renni til lífeyrissjóða þeirra. Talið er að sjómenn á fiskiskipum greiði iðgjöld í sjö lífeyrissjóði en þeir eru: Lífeyrissjóður sjómanna, Lífeyrissjóður Vestmannaeyinga, Lífeyrissjóður Vestfirðinga, Lífeyrissjóður Bolungarvíkur, Lífeyrissjóður stéttarfélaga í Skagafirði, Lífeyrissjóður verkalýðsfélaga á Norðurlandi vestra og Lífeyrissjóður Austurlands.
     Iðgjöld til Lífeyrissjóðs sjómanna eru talin nema um 65% af heildariðgjöldum sjómanna á fiskiskipum til lífeyrissjóða. Allir lífeyrissjóðir, aðrir en Lífeyrissjóður sjómanna, eru blandaðir sjóðir, þ.e. fleiri stéttir en sjómenn greiða iðgjöld til þeirra. Samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð sjómanna geta þeir sjómenn, sem til hans greiða, hafið töku lífeyris 60 ára gamlir. Aðrir lífeyrissjóðir munu beita sömu reglu og veita sínum sjómönnum sama rétt. Það hafa þeir gert án þess að séð hafi verið fyrir sérstakri fjármögnun til að standa undir þessum réttindum sjómanna umfram aðra sjóðfélaga, en sjómenn greiða sama hlutfall launa sinna í lífeyrissjóðina og aðrir sjóðfélagar. Innborgun eins og hér er gert ráð fyrir ætti að treysta fjárhag sjómannadeilda lífeyrissjóðanna.
     Gera má ráð fyrir að í hlut lífeyrissjóðanna komi um 278 m.kr. sem skiptist þannig: Af hluta innstæðna á reikningum í deild fyrir óunnar botnfiskafurðir um 110 m.kr. Um 118 m.kr. komi frá hluta innstæðna á reikningum í deild fyrir unnar botnfiskafurðir sem myndast hefur vegna útflutnings afurða vinnsluskipa. Lagt er til að greiðslur til lífeyrissjóðanna af reikningi vegna humars verði 34 m.kr. og 16 m.kr. af reikningi vegna saltfiskafurða. Í greininni er gert ráð fyrir að útborgun úr Verðjöfnunarsjóði skiptist á milli lífeyrissjóða sjómanna á fiskiskipum í samræmi við hlut viðkomandi sjóðs í heildariðgjöldum. Er hér átt við samanlögð iðgjöld launþega og atvinnurekanda eins og atvinnurekanda ber að skila til lífeyrissjóðs. Innheimta á iðgjöldum og skil til lífeyrissjóða fara fram um greiðslumiðlun sjávarútvegsins. Útgerðarmenn skila skilagreinum um iðgjaldagreiðslur til viðkomandi lífeyrissjóðs. Engin vandkvæði eru því á að finna út hlut hvers sjóðs í þeirri fjárhæð sem til skipta kemur.

Um 6. gr.


    Með lögum nr. 78 23. desember 1991, um viðauka við lög nr. 39 15. maí 1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, voru greiðslur til sjóðsins stöðvaðar á tímabilinu 1. janúar 1992 til 31. ágúst 1992. Með þessari grein er lagt til að stöðvun innborgana verði framlengd til næstu áramóta og jafnframt verði reglulegar útborganir vegna verðlækkana afurða stöðvaðar á sama tímabili. Af augljósum ástæðum eru miklir framkvæmdaörðugleikar því samfara að sjóðurinn sé virkur í verðjöfnun samtímis því að verið er að tæma reikning hans til greiðslu skulda innstæðueigenda og til lífeyrissjóða sjómanna. Að sjálfsögðu hefur þessi grein þó engin áhrif á innheimtu ógreiddra krafna vegna útflutnings fyrir síðustu áramót.

Um 7. og 8. gr.


    Greinar þessar þarfnast ekki skýringa.