Ferill 222. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 222 . mál.


1037. Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um málefni fatlaðra.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Að kröfu minni hluta félagsmálanefndar var haldinn fundur í félagsmálanefnd í morgun og fengnir til fundar fulltrúar Þroskahjálpar, Öryrkjabandalagsins, Sjálfsbjargar, Tjaldaness og Skálatúns, auk þess sem Margrét Margeirsdóttir, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, mætti á fundinn.
    Fulltrúar Tjaldaness og Skálatúns lögðu áherslu á að verksvið réttindagæslumanns yrði betur skilgreint, enn fremur að sjálfsagt og eðlilegt væri að ríki greiddi sjálfseignarstofnunum afgjald fyrir afnot af eignum sem ekki hefðu verið fjármagnaðar af ríki. Þá kom fram frá fulltrúum Tjaldaness að heimilið hefði verið afhent 1976 skulda- og kvaðalaust til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og óskað var eindregið eftir því að sú skipan mála yrði áfram. Þetta var áréttað vegna þess sem fram kemur í athugasemd við 11. gr. frumvarpsins að „starfsemi Tjaldaness þykir þó standa nær þeim vistheimilum sem heyra undir félagsmálaráðuneyti heldur en stofnunum á vegum heilbrigðisráðuneytis. Viðræður hafa því átt sér stað milli heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis um framtíð Tjaldaness og eru aðilar sammála um að eðlilegt sé að vistheimilið flytjist undir félagsmálaráðuneyti. Stefnt skal að því að sú breyting eigi sér stað við gildistöku laga þessara.“
    Telur minni hlutinn eðlilegt að ekki séu gerðar breytingar á skipan þessara mála sem ganga þvert á vilja fulltrúa Tjaldaness.
    Þá vill minni hlutinn taka fram að fram kom hjá Margréti Margeirsdóttur að mikilvægt væri að koma upp starfsprófunardeild og að felldum 6. tölul. 17. gr. frumvarpsins vantaði einhvern aðila til þess að sinna þessu mikilvæga hlutverki sem er nauðsynleg forsenda XII. kafla frumvarpsins um atvinnumál.
    Fulltrúi Öryrkjabandalagsins lagði áherslu á að samtökin teldu 2. málsl. 31. gr. frumvarpsins óþarfan og vöruðu við honum og enn fremur að samtökin teldu rétt að stjórnarnefnd yrði falið að úrskurða um ágreiningsatriði sem upp kunna að koma vegna framkvæmdar laganna og heimild til að vísa þeim úrskurði til ráðherra. Er þetta í samræmi við athugasemd við 4. gr. frumvarpsins sem fram kemur í umsögn Þroskahjálpar.
    Að öðru leyti lögðu fulltrúar hagsmunasamtakanna ekki áherslu á þær athugasemdir sínar í umsögnum samtakanna sem ekki hefur verið mætt og verður af hálfu minni hlutans ekki frekar haldið fram kröfu um að koma til móts við þær nú.
    Minni hlutinn stendur að þeim breytingartillögum sem nefndin flytur á þskj. 1024 og fagnar því að meiri hluti nefndarinnar hefur snúist til fylgis við afstöðu minni hlutans í 1. og 5. breytingartillögu.
    Auk tillagna á þskj. 1024 flytur minni hlutinn nokkrar breytingartillögur.
    Um 1., 3. og 4. gr. Gerð er tillaga um að stjórnarnefnd úthluti fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra og að Alþingi eigi þar beina aðild. Telja verður eðlilegt að Alþingi hlutist til um úthlutun svo hárra fjárhæða sem raun ber vitni í stað þess að láta framkvæmdarvaldinu það eftir.
    Um 2. gr. Lagt er til að stjórnarnefnd verði falið að úrskurða um ágreiningsatriði sem upp kunna að koma vegna framkvæmdar laganna.
    Um 5. gr. Gerð er tillaga um að ekki verði heimilt að ákvarða gjaldtöku vegna skammtímavistunar skv. 22. gr. frumvarpsins.
    Um 6. gr. Lagt er til sams konar ákvæði og oft hafa verið sett við sömu aðstæður og vísast til nýlegasta dæmisins í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins um yfirskattanefnd sem tekur við af ríkisskattanefnd.
    Minni hlutinn ítrekar fyrri skoðun sína að þörf sé á að vinna betur að frumvarpi þessu og stefna beri að því að leggja fram á haustþingi endurskoðað frumvarp og er reiðubúinn að stuðla að því að svo geti orðið.
    Fari svo að frumvarpið hljóti afgreiðslu á þessu þingi mun minni hlutinn styðja það þó annmarkar séu á frumvarpinu eins og bent hefur verið á.

Alþingi, 19. maí 1992.



Kristinn H. Gunnarsson.