Samningar við EB um fiskveiðimál

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 14:29:02 (4369)


     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :

    Virðulegur forseti. Ég var einungis að benda á að þessi röksemdafærsla er hættuleg. Vegna þess að eins og hún var lögð hér fram af hv. þm. Steingrími Hermannssyni þá gefur hún Evrópubandalaginu færi á að krefjast aukinna heimilda til einmitt að veiða djúpkarfa ef þessari röksemdafærslu er fylgt. En ég lýsi ánægju minni með það að hann hefur með nokkrum hætti dregið úr henni. Hvað varðar síðan munin á togurum Belga og hins vegar togurum Evrópubandalagsins, gott og vel ég get fallist á að það megi gera þarna greinarmun á. Hitt liggur eftir að Belgar og togarar Belga tilheyra auðvitað flota Evrópubandalagsins þannig að það er alls ekki hægt að segja eins og þingmaðurinn gerði í sínu nál. og sinni ræðu hérna áðan að það væri verið að hleypa togurum Evrópubandalagsins inn á ný. Með því að segja ,,á ný`` þá er hann að halda því fram að þeir séu ekki nú þegar að veiðum hér. Það er bara rangt.
    Að öðru leyti hvað varðar Belga þá er það athyglisvert að þingmaðurinn hefur lýst því hér yfir að hann er á móti því að segja upp þessum samningi. Ég minnist þess að hv. þm. Halldór Ásgrímsson ræddi nákvæmlega þetta mál hér um daginn. Ég man ekki betur en að hann hafi verið þveröfugrar skoðunar. Þannig að það ekki bara í afstöðunni til samningsins um EES sem þessir tveir hv. formaður og varformaður Framsfl. eru á öndverðum meiði heldur líka í þessu tiltekna litla máli. ( Gripið fram í: Litla máli?)