Samningar við EB um fiskveiðimál

94. fundur
Miðvikudaginn 06. janúar 1993, kl. 14:30:47 (4370)


     Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hnaut líka um það sem hann sagði í lokaorðum sínum hv. ræðumaður ,,þessu litla máli``. Það getur vel verið að hv. ræðumaður líti á það sem lítið mál að hleypa togurum Evrópubandalagsins óskilorðsbundið hverjir þeir eru hér inn til að veiða 3.000 lestir af karfa. Og hv. þm. ferst nú ekki að tala um að breyta um skoðun. Ég hef engan mann séð og hitt hér á þingi sem hefur svo gjörsamlega breytt um skoðun í flestöllum málum eins og hv. þingmaður. Og sem hefur talað hér þvert um það sem hann svo gerir. Og ég gæti rakið hér fjölmörg dæmi þess eðlis, fjölmörg dæmi. Tíminn leyfir það ekki. En kannski við getum tekið það upp síðar. Það tæki æðilangan tíma.
    Svo út af þessum karfastofnum sem hann talar um þá vakti ég athygli á því síðar að þennan djúpkarfa, ef við erum að tala um það sama því það munu vera þrír karfastofnar sem taldir eru veiðanlegir hér á Íslandsmiðum eða í kringum Ísland, þá er hann líka veiðanlegur utan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Og ég sagði áðan: Þeir þurfa ekki að leita veiðiheimilda hér til að veiða þann karfastofn. Þeir geta veitt hann. Þeir hafa samninga við Færeyinga, ég veit ekki hvort þeir ná til karfans en jafnvel utan þeirra fiskveiðilögsögu geta þeir náð til djúpkarfans. Það er alveg ljóst að Evrópubandalagið er að sækjast eftir þeim karfastofni sem er hér fullveiddur. Annars væru þeir ekki að sækjast eftir að komast hér inn í íslenska fiskveiðilögsögu.