Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 17:58:48 (4508)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er afar sérstakur orðinn sá áhugi sem hv. þm. Alþb. hafa á afstöðu Framsfl. í þessu máli og sú mikla umhyggja sem kemur fram í þeirra orðum. Ég hef ekki viljað fara í neinn málefnalegan stóran ágreining við þá. En hv. þm. skuldar mér líka skýringu á þessari miklu umhyggju. Ég hef reyndar, virðulegi forseti, grun um að sú skýring felist að einhverju í því að allt of margir í þingliði hér vilja frekar nota þetta mál til einhverra óskilgreindra pólitískra framdrátta í þjóðfélaginu en að leita eftir sáttum. Einfaldlega vegna þess að ef við lesum þetta plagg hérna, lesum hvað hv. þm. skrifar undir þar og berum það saman við atkvæðaskýringu hans í fyrradag, þá skuldar hv. þm. skýringu á þeim mikla mun sem er annars vegar á því sem hann samþykkti í júní og hins vegar atkvæðaskýringunni í fyrradag.