Evrópskt efnahagssvæði

97. fundur
Föstudaginn 08. janúar 1993, kl. 18:32:47 (4523)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef þegar svarað efnislega þeim athugasemdum sem fram komu hjá hv. þm. að því er varðar mat á áhrifum EES-samninganna þegar þeir eru að fullu komnir til framkvæmda. Ég byggði þar á ýmsum heimildum en vitnaði í tvenn gögn. Annars vegar frá Þjóðhagsstofnun og hins vegar frá fjmrh. Ef hv. þm. les rækilega skýrslu Þjóðhagsstofnunar sem hann tók réttilega fram að er frá því á haustmánuðum 1991 þá er þar mjög rækilega tíundað að þær forsendur sem þeir gefa sér séu mjög varfærnislegar. Þegar tekið er tillit til þess hvernig þáv. fjmrh. og þáv. samstarfsmaður okkar Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþb., metur áhrifin þegar þau eru fram komin á ríkisfjármálin ( Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.) er varfærnislegt að slá því föstu að tölugildi geti verið, á varfærnum forsendum, 1,5% af þjóðarframleiðslu.
    Að því er varðar þær tölur sem ég nefndi um horfur um afkomubata í sjávarútvegi þá eru þær byggðar á útreikningum sem ég fékk frá formanni þeirrar nefndar sem nú er að gera úttekt á fiskveiðistefnu og afkomu í sjávarútvegi og er sömuleiðis byggð á þeim forsendum þegar samningarnir eru komnir fram í heild sinni, þ.e. bæði tollalækkanirnar sem og breytingar á samsetningu útflutnings í ljósi lækkaðra tolla á meira unnum og verðmætari vörum.
    Að því er varðar spurningu um afstöðu þingflokks Alþfl. vegna þeirrar merku ræðu sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason flutti hér áðan og á eftir væntanlega að vekja meiri athygli þá svaraði hann spurningu hv. þm. sjálfur. Hann sagði að hann væri einn um þá skoðun í þingflokki Alþfl.