Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 14:33:11 (4688)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það verður að bera saman raunveruleikann í þessu máli. Það er misjafnt hvernig einstakar fisktegundir eru nýttar hér á landi. Ef ætti að fara að leiðrétta alla verðstuðla með þeim hætti út frá því hvað væri gert við aflann er ég hræddur um að það yrði flókið. Það er einfaldlega staðreynd að karfinn er nýttur til vinnslu innan lands, til frystingar úti á sjó og jafnframt er siglt með hann og í meira mæli en þorsk. Þetta er það verðmæti sem endurspeglar þjóðhagslegt gildi og verðmæti þessara aflaheimilda. Það er það sem þessi stuðull Þjóðhagsstofnunar sýnir.
    Að því er langhalann varðar hefði verið jafnvægi í óörygginu annars vegar á því er varðar langhalann og hins vegar að því er varðar loðnuna. En niðurstaðan er hins vegar sú að Evrópubandalagið fær í fyrsta lagi verðmætari veiðiheimildir og í öðru lagi mörgum sinnum öruggari veiðiheimildir en við fáum í staðinn. Þetta er það alvarlega í málinu.