Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:06:33 (4702)

     Ólafur Ragnar Grímsson :

    Virðulegi forseti. Það mætti ætla af því kappi sem hæstv. utanrrh. hefur sýnt í þessu máli síðustu vikurnar að gildistaka Evrópska efnahagssvæðisins strandaði á því að Alþingi Íslendinga væri ekki búið að afgreiða samninginn. Það er nú ljóst að þetta er mikill misskilningur. Meiri hluti ríkja Evrópubandalagsins hefur alls ekki staðfest þennan samning og enginn veit hvenær þau ætla sér að gera það. Ríkisstjórn Spánar hefur meira að segja gengið svo langt að hún hefur dregið frv. um staðfestingu EES-samningsins til baka. Framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hefur ekki enn þá fengið umboð frá æðstu stofnun bandalagsins til að endursemja um samninginn. Í dag getur enginn fullyrt hvenær þessi samningur mun taka gildi. Eitt er víst að Evrópska efnahagssvæðið getur aldrei tekið gildi á grundvelli þess samnings sem hér er til umfjöllunar á Alþingi. Þjóðaratkvæðagreiðslan í Sviss hafði það í för með sér. Þess vegna er hvorki raunhæft né skynsamlegt að afgreiða á Alþingi frv. sem ekki getur staðist. Prófessor í lögum við Háskóla Íslands flytur ítarleg rök fyrir því í grein í Morgunblaðinu í dag að frv. sem hér á að koma til atkvæða geti ekki staðist. Færustu sérfræðingar landsins í lögum hafa sýnt fram á að sjálft frv. og samningurinn brýtur í bága við íslensku stjórnarskrána. Enginn málsmetandi íslenskur lögfræðingur hefur treyst sér til þess síðan þær greinargerðir komu fram að sýna fram á annað. Það er þess vegna engin skynsemi í því að fara nú að ganga til atkvæða um frv. sem ekki getur staðist um samning sem ekki mun taka gildi. Ég segi því já við þeirri frávísunartillögu sem hér er verið að greiða atkvæði um.