Evrópskt efnahagssvæði

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 15:38:09 (4723)


     Vilhjálmur Egilsson :
    Hæstv. forseti. Sjálfstæðisbarátta íslensku þjóðarinnar snerist um að hún gæti staðið á eigin fótum upprétt í samfélagi þjóðanna. Aukin utanríkisviðskipti og uppbygging atvinnulífs í samstarfi við erlenda aðila mun leggja grunninn að sókn okkar til bættra lífskjara í framtíðinni. Einangrun leiðir til stöðnunar og fátækar og stefnir sjálfstæði okkar í voða. Með einangrun ofurseljum við okkur erlendum lánardrottnum. Þetta er reynsla annarra þjóða og þetta á líka við hér á landi. Samræmdar leikreglur í viðskiptum milli landa eru lykilatriði fyrir aukin utanríkisviðskipti. Með EES fær íslenskt atvinnulíf aðgang að innri markaði EB og sambærilegar leikreglur í viðskiptum og í helstu viðskiptalöndum okkar eru teknar upp hér á landi. Íslensk viðskiptalöggjöf verður gjaldgeng í samskiptum Evrópuþjóða og við fáum víðtæk réttindi á Evrópska efnahagssvæðinu og styrkjum fullveldi okkar og sjálfstæði. Samningurinn er því mikið hagsmunamál atvinnulífsins og þjóðarinnar. Ég segi já.