Samningar við EB um fiskveiðimál

100. fundur
Þriðjudaginn 12. janúar 1993, kl. 18:34:36 (4764)


     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegur forseti. Hér fjöllum við um till. til þál. um staðfestingu á tvíhliða samningi við Efnahagsbandalag Evrópu um fiskveiðimál og lífríki hafsins. Ég vil við þessa umræðu lýsa yfir stuðningi við till. og þann samning sem hér liggur fyrir.
    Í áliti meiri hluta utanrmn. kemur fram aðdragandi þess að samningur er gerður og í áliti meiri hluta sjútvn. sem fylgir með áliti utanrmn. er gerð grein fyrir þeirri hlið samningsins sem lýtur að veiðum samkvæmt þessum samningi. Meiri hluti sjútvn. mælir með samningnum og færir fyrir því fullgild og mjög athyglisverð rök og því ekki ástæða til að endurtaka það við þessa umræðu.
    Þegar litið er á samninginn í heild og til þess hve langan tíma hefur tekið að ná niðurstöðu er ástæða til að fagna því að gerður sé samningur við Efnahagsbandalagið um fiskveiðimál og ekki síður það er varðar lífríki hafsins eins og gert er ráð fyrir í samningnum. Það hlýtur að skipta mjög miklu fyrir okkur að gera samning um fiskveiðimál þar sem viðurkennd er sérstaða okkar og náð samkomulagi um gagnkvæmar veiðiheimildir sem eru samt í raun fremur táknrænar en að þær skipti einhverjum sköpum um afkomu okkar sjávarútvegs. Það mikilvægasta er að gera samning sem gerir ráð fyrir skipulegri nýtingu sameiginlegra stofna, vernd og nýtingu þeirra og vísindalegum rannsóknum í hafinu.
    Sá ágreiningur sem orðið hefur í þinginu er að mínu mati ekki um verulega mikilvæga hluti. Deilur um hvort skipt er nákvæmlega á jafngildum veiðiheimildum þegar verið er að tala annars vegar um karfa og hins vegar um loðnu er að mínu mati deila um minni háttar þætti miðað við samninginn í heild eins og við höfum hann fyrir framan okkur.
    Við Íslendingar eigum mikið undir aðgangi að auðlindum hafsins og að samstarf takist við Evrópuþjóðirnar, einkum um rannsóknir í hafinu og skipulega nýtingu sameiginlegra stofna svo sem komunna og ekki síður um varnir gegn mengun hafsins. Þessi samningur fjallar um þá mikilvægu þætti en ekki um forsögu þessa samnings eða þessa máls og aðdraganda og ekki heldur um það hvort nákvæmlega sé hægt að verðleggja 3.000 tonn af karfa á móti 30.000 tonnum af loðnu.
    Ég ítreka svo stuðning minn við samninginn og vænti þess að undir stjórn hæstv. sjútvrh. megi nýta samninginn og þá möguleika sem hann gefur okkur sem best fyrir hagsbóta fyrir íslenskan sjávarútveg og til þess að nýta sem best og um leið verja auðlindina í hafinu.