Eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar

105. fundur
Miðvikudaginn 10. febrúar 1993, kl. 15:02:41 (4924)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Því miður er það nú þannig að hæstv. sjútvrh. dró til baka þann sóknartón sem var í lokin á fyrri ræðu hans. Nú sá hann ástæðu til að koma hér upp og segja að óskhyggjan ein dygði ekki. Hér er ekki verið að tala um óskhyggju, hér er verið að tala um málstað og réttindi Íslands og sókn, hæstv. ráðherra, í þeim efnum.
    Það eru til margar ræður hér í sögu landhelgismálsins um ráðherra og forustumenn sem voru úrtölumenn og sögðu að óskhyggjan dygði ekki. Forustumenn Alþfl. og kannski einhverjir úr Sjálfstfl. En t.d. utanrrh. Alþfl. fyrir 1971 talaði líka um að óskhyggjan um 50 mílur dygði ekki. Við hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og ég hlustuðum á ýmsar ræður um að óskhyggjan um réttindi Íslendinga á Jan Mayen svæðinu dygði ekki. Við höfum heyrt margar svona ræður --- að óskhyggjan dugi ekki. Íslendingar hafa aldrei náð neinum rétti í landhelgismálinu á grundvelli slíkra ræðuhalda. Ég vona að hæstv. sjútvrh. hugsi þetta mál mjög rækilega eftir þessa umræðu hér. Skoði það vel og rækilega og gangi síðan í sveit með okkur hinum um að gera réttindakröfur okkar og hagsmunatúlkun okkar á hafréttarsáttmálanum að grundvelli stjórnarstefnunnar í þessum málum.
    Það var hins vegar athyglisvert að hann treysti sér ekki til að segja neitt hér um viðræður við Breta og Íra á síðustu 12--18 mánuðum í þessum réttindamálum Íslendinga á hafsvæðinu milli Íslands og þessara landa. Eða um nánari útfærslu á samstöðu okkar með Færeyingum og Dönum í að sækja rétt sem Bretar og Írar eru að taka sér á þessu svæði. Er kannski skýringin á því sú að núv. hæstv. dómsmrh. og núv. hæstv. utanrrh. hafi látið þá réttindasókn liggja?