Aðild Alþingis að 50 ára afmæli lýðveldisins

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 15:44:40 (5099)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á athugasemdum hv. 14. þm. Reykv. Það er út af fyrir sig hárrétt hjá hv. þm. að ríkisstjórnin hefði getað skipað nefnd upp á sitt eindæmi til að undirbúa þessi hátíðahöld, en ég hygg að það sé mál manna og a.m.k. þeirra sem hér hafa tjáð sig að það fari afskaplega vel á því að atbeini Alþingis sé mikill og mestur í sambandi við þennan undirbúning allan. Ég hygg að ekki hefði farið vel á því að nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar og síðan nefnd á vegum Alþingis væru í einhvers konar samkeppni um hátíðahöld af þessu tagi. Ég tel því að sú umræða sem hér hefur átt sér stað hafi verið í algjörlega réttum farvegi og undirbúningur þess að það megi nást sæmileg samstaða um þetta mikla mál. Auðvitað er það svo að við Íslendingar getum komið okkur upp þrefi um flesta hluti ef við viljum og eigum létt með það. En við eigum líka einstaka sinnum að geta hafið okkur upp yfir það og kostað kapps um að vinna að málum eins og þeim sem hér eru um rædd núna í sameiningu þannig að það verði þjóðinni allri og þinginu ekki síst til sóma.