Vextir og kjarasamningar

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 13:38:57 (5104)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að skattyrðast við hv. þm. um það sem Alþingi gerði í skattamálum, það er okkur öllum ljóst og liggur fyrir og við höfum rætt það út nú þegar. En varðandi það sem hann sagði um vaxtamálin er full ástæða til þess að mótmæla því sem kemur fram í máli hv. þm. Auðvitað hefur ríkisstjórnin áhyggjur af vaxtastiginu hér á landi og ætlar sér að eiga alvöruviðræður við þá aðila sem áhrif geta haft á vaxtastigið. Ekki er til mikils að ákveða það að taka erlend lán fyrri hluta ársins og þurfa svo að ná öllum lánunum inn á síðari hlutanum. Aðalatriðið fyrir ríkissjóð er að gefa út til lífeyrissjóðanna og annarra þeirra sem kaupa skuldabréf hvernig ríkið hyggst ná inn peningum allt árið. Það er fyrst og fremst lánsfjárþörf ríkisins sem hefur áhrif á vexti því að vextir ákvarðast á markað eins og hv. þm. veit mætavel.
    Hins vegar er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að Seðlabankinn getur haft áhrif með kaupum og sölum á skuldabréfum og það er eitt af því sem nákvæmlega verður farið ofan í nú á næstunni.