Fullgilding á sjávarútvegssamningum milli Íslands og EB

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 13:44:03 (5108)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Þessum skiptum á fullgildingarskjölum er ekki lokið. Samningsaðilinn hefur ekki með formlegum hætti gengið frá staðfestingu samninga þannig að svarið við því er einfaldlega það að fullgildingin hefur ekki átt sér stað. Af því að hv. þm. vék að óvissu um gildistöku EES-samningsins sjálfs þá er það rétt að það er í óvissu hvenær hann tekur gildi. Samningaviðræður eru yfirstandandi og snúast að mestu leyti um kröfur af hálfu Evrópubandalagsins að því er varðar framlög í þróunarsjóð. Það er ekkert nýtt sem ég get flutt hinu háa Alþingi af því máli þannig að því er ekki hægt að svara með neinum óyggjandi hætti.