Upplýsingabréf fjármálaráðherra

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 14:08:32 (5132)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil benda á að sum ráðuneyti hafa sent fréttabréf út um nokkuð langt skeið. Ég minni t.d. á félmrn. í því sambandi. Það er því ekkert nýtt að fréttabréf eða upplýsingarit berist úr ráðuneytunum. Vegna þess sem hv. þm. las úr upplýsingabréfinu skal tekið fram að það eru upplýsingar sem byggjast á spá og forsendum Þjóðhagsstofnunar þannig að hér er ekki um áróður að ræða í þeim skilningi að verið sé að búa til tölur, þvert á móti er verið að koma til skila tölum vegna þess að það er mjög útbreitt í þjóðfélaginu að verið sé að bera á borð fyrir almenning tölur sem búnar eru til annars staðar en hjá opinberum stofnunum. Ég held að ráðuneytið hljóti að hafa sömu réttindi og aðrir til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, ekki síst ef það eru sjónarmið sem byggjast á opinberum upplýsingum.