Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 16:02:23 (5165)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna skoðanaskiptum hv. þm. sem hér komu svo greinilega fram nú í síðustu ræðu hans. Nú er hv. þm. farinn að samfagna hinni raunverulegu niðurstöðu þegar hann hefur verið sannfærður um það hvað tölur segja klárt og kvitt um hve mikið er til framkvæmda í vegamálum nú og hve mikið var til framkvæmda í vegamálum hér á árum fyrrum og sérstaklega þegar hans eigin flokkur fór með þann málaflokk. Ég eyði ekki tíma mínum í það í pólitík að ræða það hverjum ber að þakka slíkt. Ef stjórnarandstaðan vill þakka sér þennan árangur, þá má hún eiga þær þakkir allar. En eitt veit ég að þetta er árangur sem skilar sér í bættum lífskjörum til þjóðarinnar og það er þjóðin sem á þetta skilið. En hverjum ber að þakka, það geta þeir leitt hugann að sem eru svo upphafnir í hégómanum að þeir hafa tíma og geð til slíkra umþenkinga.