Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 17:02:28 (5183)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er afar leitt að geta ekki talað eðlilega við hæstv. samgrh. um þessi mál. Hann fer í útúrsnúninga í hvert skipti sem hann kemur hér upp og talar um það að menn séu andsnúnir því að loka hringveginum. Hvernig ætli hafi staðið á því, hæstv. samgrh., að það var álit þingmannahópsins, og ég veit ekki betur en það hafi líka verið álit þeirrar nefndar sem hæstv. núv. samgrh. sat í, að það bæri að taka nýjar ákvarðanir um þessi mál þegar langtímaáætlun yrði næst endurskoðuð, þ.e. nú eftir tvö ár? Vegagerðin taldi sig ekki geta svarað því nægilega vel fyrr en þá hvar vegurinn ætti að liggja. Það kemur hins vegar ekkert í veg fyrir það að hægt sé að leggja veginn um Mývatnsöræfi. Það hefur verið vanrækt lengi og er sjálfsagt að fara í það. En það er alveg nauðsynlegt, hæstv. samgrh., að ráðherrann geri sér grein fyrir því að það eru fleiri vegarkaflar en vegurinn um öræfin sem á eftir að loka. Það eru stórir kaflar á öllu Austurlandi sem á eftir að leggja til að hægt sé að tala um að loka hringveginum og ætti hæstv. samgrh. að fara að kynna sér það.