Útsendingar Sýnar

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 13:38:57 (5356)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekki að koma í veg fyrir að hæstv. forseti svaraði þessari fyrirspurn en ég vildi geta þess um leið og ég tek undir það efni sem hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttur nefndi varðandi útsendingar frá Alþingi gegnum sjónvarp að ég hef nefnt þetta atriði við forseta þingsins og raunar mjög nýlega. Ég tel í rauninni mjög þýðingarmikið fyrir Alþingi að taka á þessu máli fyrr en seinna. Það hefur ekki legið fyrir hversu lengi þessar útsendingar sjónvarps frá þinginu yrðu. Þær voru heimilaðar í tilraunaskyni að ég best veit en ég tel að forusta þingsins þurfi að hafa frumkvæði í þessu máli. Ég hygg að reynslan af þessum tilraunasendingum sýni að það er eftirspurn eftir þessu efni. Það eru margir sem fylgjast með störfum Alþingis í gegnum þessa útsendingu, þ.e. þeir sem hafa tök á því að nýta sér þessar útsendingar. Hins vegar ná útsendingarnar aðeins til lítils hluta af landinu, að vísu til meiri hluta landsmanna, en í þessu efni þyrftu landsmenn að sitja við sama borð. Hvort sem það er sendingar í gegnum Sýn eða Ríkissjónvarpið eða með öðrum hætti er aðalatriðið að mínu mati að störf Alþingis nái til landsmanna í gegnum sjónvarp hið fyrsta. Auðvitað væru útvarpssendingar í gegnum hljóðvarp einnig til bóta.