Samkeppnislög

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 11:38:58 (5416)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Efh.- og viðskn. er búin að leggja mikla vinnu í þetta frv. og um alla meginkafla frv., sem snúa að innlendum viðskiptum, er alger samstaða. Ég lýsti því hér yfir í umræðum við 3. umr. að ég hefði talið eðlilegt að til þess að hægt væri að afgreiða frv. í heild samkvæmt þeirri miklu samstöðu sem er um meginþætti þess, þá hefði verið eðlilegt að draga til baka XI. kaflann um Samkeppnisstofnun og eftirlitsstofnun EFTA semja um að síðan yrði sá þáttur afgreiddur þegar sést hefði fyrir endann á samningunum um EES. Því miður féllst stjórnarmeirihlutinn og ríkisstjórnin ekki á þessa málsmeðferð sem að mínu mati hefði sýnt vilja til þess að breyta starfsháttum Alþingis á jákvæðan hátt auk þess sem mér sýnist að það hnígi að því öll rök að þau frumvörp sem enn eru óafgreidd um EES verði hér unnin í nefndum, en síðan beðið með afgreiðslu þeirra þar til við sjáum fyrir endann á málinu. Þetta var ekki gert. Það var ekki orðið við beiðni okkar í minni hluta efh.- og viðskn. um þetta þrátt fyrir það að við höfum verið tilbúnir til þess að vinna að þessu máli, svo og öðrum málum sem tengjast EES eða öðru nánast á hvaða tíma sem farið hefur verið fram á á þessum vetri. Þarna er ríkisstjórnin og meiri hlutinn að sýna vilja sinn til samstarfs og samhugar Alþingis og ég mun þess vegna, þrátt fyrir að ég sé sammála meginefni frv., sitja hjá við atkvæðagreiðsluna til að leggja áherslu á mótmæli mín gagnvart þessum vinnubrögðum.