Samkeppnislög

117. fundur
Fimmtudaginn 25. febrúar 1993, kl. 11:53:49 (5423)


     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í tilefni af ræðu hv. þm. Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar, míns ágæta félaga úr efh.- og viðskn., segja að ég ætlaði ekki að reita hann til reiði með því að segja honum þá skoðun mína að ég teldi það hálfgerðan sparðatíning af hans hendi að samþykkja ekki frv. þrátt fyrir XI. kafla. Ég segi honum það vegna þess að það er mín einlæga skoðun. Við höfum rætt þannig saman í þessari ágætu nefnd að við höfum sagt hvor öðrum okkar skoðanir á málunum og reynt að taka tillit til hvors annars. Yfirleitt hefur það verið hægt en hins vegar gerist það ekki í þessu máli. Ég veit að hann mun ekki verða langorður í umræðum ef --- og ég segi með stóru ef-i --- til þess þyrfti að koma að fella þyrfti niður ákveðinn greini í lögunum jafnvel þó að þrjár umræður þurfi til.
    Ég treysti því að hv. þm. verði jafnduglegur og hingað til að mæta á fundi og við eigum eftir að eiga gott samstarf saman í nefndinni þrátt fyrir að okkur greini á um þetta mál sem mér finnst vera sparðatíningur en honum greinilega ekki.