Seðlabanki Íslands

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 11:56:30 (5536)

     Kristín Ástgeirsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að hér er um nýmæli að ræða, að fram kemur skrifleg beiðni um það að taka mál fyrir í nefnd áður en umræðunni verður haldið áfram, en ég vil minna á það að við í efh.- og viðskn. höfum veitt okkar samþykki til þess að byrja á máli jafnvel áður en búið er að mæla fyrir því til þess að flýta fyrir framgangi mála jafnvel þó að þar sé á ferðinni ýmislegt sem okkur þykir harla vont. En vegna ummæla hæstv. viðskrh. hér áðan um það að þetta væri vel kynnt mál, þá er það vissulega rétt að það er langt síðan þetta mál kom fram og frv. er búið að liggja fyrir þinginu nokkurn tíma og vissulega hafa allir flokkar átt fulltrúa í nefndinni. En það breytir ekki því að hér eru á ferðinni margs konar álitamál og ég held að það mundi greiða mjög fyrir umræðum að fá skýringar frá þeim sem sömdu frv. á þeim niðurstöðum sem hér er að finna. Ég er nú búin að lesa greinargerðina vel og rækilega, en er engu nær um það hvers vegna menn komast að ákveðnum niðurstöðum. Ég get tekið sem dæmi að ég velti því nokkuð fyrir mér hvers vegna hlutverk bankans er ekki skilgreint í lögunum. Þar er fjallað um markmið en hlutverk bankans, sem er mjög margþætt, er ekki skilgreint í lögunum. Í greinargerðinni kemur fram að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að skilgreina ekki hlutverkið heldur dreifa því á einstakar greinar. Þetta er svona eitt af þeim álitamálum sem ég vildi gjarnan ræða um við nefndina en er kannski óþarfi að vera að beina einhverjum spurningum til ráðherrans um það mál þannig að ég held að það mundi mjög greiða fyrir málinu að við fengjum fyrir fram upplýsingar um ýmsar röksemdir sem liggja að baki og ýmis þau mál sem komið hefur verið inn á í umræðunni. Þess vegna legg ég til að við göngum í það verk að vísa þessu máli til efh.- og viðskn. og getum síðan haldið umræðunni áfram þegar sú könnun hefur farið fram.