Frágangur fjárlaga 1993

120. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 10:47:29 (5576)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Það er eðli ríkissjóðs að standa fyrir ýmiss konar millifærslum í þjóðfélagi okkar. Ríkið tekur og ríkið gefur. Það innheimtir skatta og það færir þetta fjármagn yfir til samtaka, stofnana og einstaklinga. Til þess að rétt mynd fáist af ríkisstarfseminni verður auðvitað að færa allt réttilega inn sem kemur inn og út sem fer út. Þar breytir að sjálfsögðu engu hvort um bráðabirgðaástand er að ræða eða ekki. Ég get ekki tekið undir með hæstv. ráðherra að þetta mál sé ekki umdeilanlegt. Það er alveg augljóst mál að hér hafa orðið mistök og það sem verra er að það virðist vera að þessi ranga færsla í fjárlögunum sé byggð á vísvitandi ákvörðun ráðuneytisins og fyrirskipunum. Ég verð því að segja alveg eins og er að ég sé ekki betur en hér sé vísvitandi verið að gefa ranga mynd af umsvifum ríkisins, væntanlega í ákveðnum pólitískum tilgangi og það þykir mér illt. Ég vænti þess fastlega að þetta verði hið fyrsta leiðrétt.