Frágangur fjárlaga 1993

120. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 10:49:02 (5577)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt sem hæstv. fjmrh. sagði áðan að lengi má deila um það hvernig bókhaldið eigi að vera, en mér finnst að fjmrn. sé ekki sjálfu sér samkvæmt í þessu. Þegar við byrjuðum að ræða fjárlög í haust var talað um að það þyrfti að taka skólagjöld og samræma þau í öllum skólum. Efnisgjöld, félagsgjöld námsmanna þyrftu öll að koma inn og sjást í ríkisreikningi og síðan vera færð út aftur til skólanna. Ef smámunir eins og þeir kalla skólagjöld framhaldsskólanna, efnisgjöldin og allt það á að koma inn í ríkisreikning sem tekjur gjaldamegin þá stangast þarna á fullyrðingar hjá ráðuneyti. Ég tel að allar umræðurnar, bæði þær sem urðu í haust og eins þær sem verða sjálfsagt í framhaldi af þessu, séu til þess fallnar að rugla fólk í ríminu. Ekki er hægt að bera saman fjárlög og ríkisreikning með eðlilegum hætti og alltaf er vísað í það að verið sé að skoða þessi mál. Ég veit eiginlega ekki hversu lengi á að skoða þessi mál áður en hægt er að setja einhverjar fastar reglur um þau.