Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 11:29:05 (5586)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var ekki annað að heyra á hæstv. félmrh. en ráðherrann væri ósammála trúnaðarmanni sínum, formanni sveitarfélaganefndar, og verð ég að segja að það er nokkuð furðulegt þegar ráðherrann talar í tvær áttir í sama málinu, annars vegar hér á þinginu og hins vegar í sveitarfélaganefnd. Rök hæstv. ráðherra eru í raun ómerk, þar sem sveitarfélag með færri en 50 íbúa er skylt að sameina öðru sveitarfélagi. Ráðherra hefur öll úrræði til þess.
    Ég vil líka benda á að það er hægt að leggja fram margar tillögur um sameiningu sveitarfélaga og þó að ein tillaga sé felld, þá er hægt að leggja fram aðra þannig að þótt einhver tiltekin tillaga sé felld er ekkert sem útilokar að menn greiði atkvæði um aðra tillögu þar sem um önnur sveitarfélög er að ræða.
    Ég vil benda á það hæstv. ráðherra til fróðleiks að þessi sérstök lög sem áttu að stuðla að fækkun sveitarfélaga úr 227 niður í 66, sem sett voru árið 1970, gáfu það af sér eftir að hafa gilt í 16 ár að þá voru sveitarfélögin enn 223. Sveitarfélögunum hafði aðeins fækkað um fjögur á gildistíma þessara sérstöku sameiningarlaga. Það er ekki fyrr en menn draga úr þessu lögþvingunarákæðum og setja ný sveitarstjórarlög árið 1986 að einhver skriður kemst á málið. Sveitarfélögum hefur fækkað úr 223 frá árinu 1986 niður í 197 núna eða um 26 eða rúm 12% á sex árum, vegna þess að menn drógu úr forræðishyggju í lögununum og lögþvinguninni. Lögþvingunin vinnur gegn markmiðunum um að sameina sveitarfélög. Það mundi ég vilja, virðulegur forseti, að hæstv. félmrh. áttaði sig á.