Vegalög

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 11:49:21 (5688)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er eitt af grundvallaratriðum hér á landi að við notumst bara við eitt tungumál í þessum sal. Og samkvæmt því tungumáli er helmingur helmingur ekki 60 eða 65%. Það breytist ekkert og verður ekki hægt að taka upp þá stefnu að helmingur þýði 65% hjá Vegagerðinni, helmingur þýði 30% hjá RARIK og helmingur þýði 20% þegar við komum í Flugmálastjórn. Það væri dálítið skrýtið ef slík regla yrði tekin upp. Helmingur er helmingur, hæstv. ráðherra. Þetta veit hæstv. ráðherra.
    Varðandi skipulagslögin má hæstv. ráðherra vera það ljóst að við höfum verið að samþykkja eitt og annað í skipulagslögum að undanförnu sem í sumum tilfellum hefur gert það að verkum að ákvæði annarra laga hafa orðið úrelt. Það er gersamlega úrelt hugsun að hægt sé að leggja vegi á Íslandi án þess að skipulag komi þar að. Það er gersamlega úrelt. --- Ég hefði gaman af að hafa hæstv. umhvrh. hér við hendina þessa stundina ( Gripið fram í: Það er ekkert gaman.) og fá hans upplýsingar um það hvort hann telji æskilegt að Vegagerðin fái sjálfdæmi um það hvar hún leggi vegi um landið án skipulags. Ég gæti trúað því að þau undur og stórvirki mundu gerast að hæstv. samgrh. og hæstv. umhvrh. yrðu nú ekki alveg sammála um þetta atriði.
    Mér þótti vænst um það sem hæstv. ráðherra minntist ekki á hér í ræðu sinni og sínu andsvari. Hann minntist ekkert á það að honum væri það kappsmál að Vegagerðin yrði einkaeigandi að snjónum og þess vegna vænti ég þess að það verði á því skilningur að sveitarfélög hafi heimildir til þess að láta moka snjó af vegum ef Vegagerðin telur sér ekki fært að gera það.