Vegalög

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 12:07:28 (5693)


     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil bara taka það fram að það er ekki nóg að hæstv. ráðherra telji að hann hafi afar gott samband við stjórnarandstöðuna og leggi sig mjög fram í þeim efnum. Aðalatriðið er nú að stjórnarandstöðunni finnist það og ég hef ekki heyrt það á stjórnarandstöðunni að þar sé sú skoðun uppi þannig að það hlýtur að vera nokkurt áhyggjuefni fyrir hæstv. ráðherra. En það þýðir náttúrlega lítið fyrir hann að vera að segja við sjálfan sig að þetta sé allt saman í mjög góðu lagi. Þetta kemur ekki einstökum verkefnum við, hæstv. ráðherra, og ég ætla ekki að fara að tala um þau hér en ég tel að það þurfi að ríkja góðar samskiptareglur, ekki aðeins undir stjórn þess ráðherra sem nú situr heldur samskiptareglur sem geti orðið til frambúðar til þess að áfram megi ríkja traust milli þingmanna, sveitarstjórna og Vegagerðar ríkisins og það sé engum ráðherra fært að grafa undan því. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að festa þessar reglur sem best í lögum.