Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 15:33:02 (5732)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að enginn efist um þann mikla stuðning sem íslensk stjórnvöld, með utanrrh. í broddi fylkingar, hafa veitt réttindabaráttu þessara tilteknu ríkja á alþjóðavettvangi. Ég hygg að á því verði framhald.
    Ég minnist þess að það kom upp umræða í þá veru að beita þessi ríki einhvers konar þvingunum, sem hv. flm. kallar óvenjulega kosti, fyrir nokkrum mánuðum. Ég velti því hins vegar fyrir mér hversu tímabær þessi tillaga er og hvort hún hafi raunverulegan tilgang í dag. Ég varð ekki þeirrar gæfu aðnjótandi, virðulegur forseti, að hlýða á fyrri ræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar. Má vera að þar hafi hann skýrt eilítið betur í hverju hinir óeðlilegu kostir felist. Ég hjó hins vegar eftir því að í sinni framsögu þá orðaði hann það svo að e.t.v. væri þetta mál ekki jafnbrýnt nú og áður og þess vegna langar mig til að inna hv. þm. eftir því: Er það svo að á alþjóðavettvangi sé núna í bígerð að setja þessum þjóðum einhvers konar óeðlilega kosti?