Afstaða Spánar til EES-samningsins

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 13:52:05 (5787)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég tel ekki tímabært eða ástæðu til þess að hætta þessu samfloti sem við höfum átt um samninga um hið Evrópska efnahagssvæði. Á hinn bóginn get ég ekkert neitað því að þessar fréttir koma auðvitað á óvart með hvaða hætti fulltrúar Spánar hafa gengið fram á þessum fundi. Á hinum formlega efnislega fundi var samþykkt og staðfest sú viðbótarbókun sem hv. þm. gat um og einnig er ítrekuð sú staðfesta samningsaðila að samningurinn megi fullgildast og komast í framkvæmd um mitt þetta ár. Síðan eru gefnar á blaðamannafundi yfirlýsingar sem ganga í gagnstæðar áttir og talað um að yfirlýsing af því tagi sem gefin er á hinum formlega fundi sé pólitísks eðlis. Auðvitað vekur þetta áhyggjur. Við höfum áður lent í því að EES hefur hnotið á sinni leið þó það hafi komist á lappirnar aftur. Þessi nýjasta vending Spánar hlýtur að vekja áhyggjur og ugg vegna þess að EFTA-ríkin höfðu sérstaklega teygt sig til að koma til móts við kröfur og óskir Spánar. Sums staðar, til að mynda í Finnlandi, hafa menn teygt sig afskaplega langt og Evrópubandalagið gengið mjög hart fram í sinni kröfuhörku gagnvart EFTA-ríkjunum.
    Ég var sammála því svari sem Dinkelspiel, utanríkisviðskiptaráðherra Svíþjóðar, gaf hv. þm. í Norðurlandaráði. Ég hef ekki talið vera neitt samhengi á milli afgreiðslu EES og Maastricht og mér kemur líka á óvart að heyra spánska utanríkisráðherrann tengja þetta saman með þessum hætti. Mér er ekki kunnugt um að aðrir Evrópubandalagsráðherrar, utanríkisráðherrar, eða forustumenn bandalagsríkjanna geri það með þessum hætti.