Íslenskukennsla fyrir fullorðna nýbúa

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:03:55 (5918)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu mjög svo brýna máli. Erindi mitt hingað í ræðustólinn er fyrst og fremst það að hvetja menntmrh. til þess að gera allt sem í hans valdi stendur til að taka á þessu máli. Við hljótum að geta lært af reynslu Evrópuþjóðanna og ekki síst Norðurlandaþjóðanna í þessum efnum þar sem menn hafa lent í miklum vandamálum vegna innflytjenda, ekki síst vegna mismunandi trúarbragða og þess að menningarheimar rekast á. Því fyrr sem gripið er til aðgerða þeim mun betra.