Íslenskukennsla fyrir fullorðna nýbúa

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:07:05 (5920)

     Össur Skarphéðinsson :
    Frú forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað um mikilvægi þess að vel sé tekið á þessum málum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög hollt og gott fyrir íslenskt samfélag að fá svolítið af erlendum menningarstraumum sem berast með þessu ágæta fólki. Ég vil líka vekja athygli á því að það hefur tekist afskaplega vel að fella þetta fólk inn í íslenskt samfélag. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera framhald á þeirri stefnu íslenskra stjórnvalda að bjóða erlendu flóttafólki hingað til lands og gera það sem stjórnvöld geta til þess að fella það inn í atvinnulíf og menningarlíf landsmanna.
    Ég hjó eftir því að hæstv. menntmrh. gat þess að það væri talin ákveðin hætta á því að ef ekki tækist að gera þetta með bærilegum hætti þá mundi það leiða til einhvers konar félagslegra vandamála. Hann gat þess einnig að þeirra hefði þegar orðið vart í barnaskólum landsins. Þá vil ég vekja athygli á því að menn verða að horfa til framtíðar. Ef við erum að tala um, eins og kom fram í máli hæstv. menntmrh., nauðsyn á sparnaði og það hefði verið nauðsynlegt á síðasta fjárlagaári að spara í þessum lið, þá er það mjög ógrundaður sparnaður vegna þess að ef þetta leiðir til félagslegra vandamála, þá mun það einungis hlaða upp kostnaði í framtíðinni.