Námskeið og námsgögn fyrir nýbúabörn

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:15:03 (5924)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Mér þótti afar merkilegt það sem fram kom í máli fyrirspyrjanda varðandi það atriði að nýbúabörnum færi aftur í íslenskukunnáttu yfir sumarið. Það bendir til þess að þessi börn séu þá einangruð yfir sumarið og séu ekki að leika sér með íslenskum börnum. Í tilefni af því sem kom fram hjá hv. 17. þm. Reykv. um að þeir nýbúar sem hingað hafi flutt hafi aðlagast vel íslensku samfélagi, þá hljóta auðvitað að vakna spurningar. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh.: Hefur verið gerð úttekt á því hvernig innflytjendum eða nýbúum hefur vegnað hér á landi? Ef það hefur ekki verið gert, stendur til að gera slíka könnun?