Dagskrá

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 15:37:45 (6301)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa undrun minni á því hvernig hæstv. forseti svaraði hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, starfandi formanni þingflokks Alþb. Svar forseta var á þá leið að það hefði verið gert ráð fyrir fundi á þessum föstudegi. Það var ekki, hæstv. forseti, gert ráð fyrir fundi klukkan hálfellefu. Það var ákveðið í gær til þess að greiða fyrir málum að samþykkja að fundur hæfist klukkan hálfellefu. Það hefur satt að segja, virðulegi forseti, gerst hvað eftir annað, gagnstætt því sem stendur á starfsáætlun þingsins og tímatöflu þingsins, að fundir eru boðaðir á föstudegi klukkan hálfellefu. Við sem reynum að skipuleggja okkar vinnutíma með skynsamlegum hætti höfum þess vegna orðið að breyta okkar áætlunum vegna þess að það er verið að færa þennan fundartíma fram og aftur.
    Ég hélt satt að segja að forsetinn hefði hag af því að leita góðrar samvinnu við þingflokkana um þessi mál en svara ekki starfandi formanni þingflokks Alþb. einfaldlega með því að segja að gert hefði verið ráð fyrir því að hér yrði fundur í dag og þess vegna skyldi þingmaðurinn hafa sig hægan nánast og forsetinn skildi ekki hvað þingmaðurinn væri að fara.
    Ég vil óska eftir því að forseti sýni meiri skilning á því hvernig fulltrúar þingflokka tala hér og nauðsyn þess að eiga góða samvinnu milli forsetaembættisins og þingflokkanna því ef sú góða samvinna hefði ekki verið fyrir hendi þá væri ekki búið að afgreiða það frv. sem hér var verið að gera að lögum á þeim skamma tíma sem það hefur verið gert.