Akstur utan vega

137. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 13:44:21 (6353)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Spurning mín er til komin vegna þess að ég tel að framið hafi verið brot á náttúruverndarlögum og hér sé ótvírætt um akstur utan vega að ræða sem getur valdið skaða á náttúrunni því að það sem gerist við svona mikla umferð er auðvitað það að snjórinn þjappast mjög mikið saman og verður eins og svell. Verði þarna langvarandi snjóalög er auðvitað hætta á því að gróðurskemmdir eigi sér stað. Slíkt hefur komið fram í kjölfar mikilla ferða um hálendið og um heiðar og því vil ég hvetja hæstv. umhvrh. til að láta kanna málið betur og brýna fyrir fólki að akstur utan vega, hvort sem er að sumri eða vetri, getur verið afar varasamur fyrir náttúru landsins.