Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:21:01 (6496)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. utanrrh. segir að það sé ótímabært að biðja um formlegar viðræður um þetta mál. A.m.k. sé það ekki tímabært fyrr en samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði tekur gildi. Það má vel vera að það sé ekki rétti tíminn til að fara fram á slíkar formlegar viðræður fyrr en þá þótt ég hafi vissar efasemdir um það. En mér líkar það illa hjá hæstv. utanrrh. þegar hann segir: Það verður ekkert á það hlustað, það mun enginn taka það alvarlega. Ég get ekki samþykkt þessar ályktanir hæstv. utanrrh. þegar það er vitað mál að allar hinar EFTA-þjóðirnar eru komnar í aðildarviðræður. Ég minni á það að ástæðan fyrir því að við náðum tiltölulega hagstæðum samningi 1972 um bókun 6 var sú staðreynd að það var þá gert ráð fyrir því að Noregur gengi í bandalagið. Þess vegna skiptir afar miklu máli að vera ekki of seinn að taka við sér í málinu eins og mér finnst að hæstv. utanrrh. ætli sér að vera og hann vilji gefa sér allt fyrir fram í málinu og kalla þetta feluleik af okkar hálfu. Ég bið nú hæstv. utanrrh. að gera ekki svona lítið úr öðrum í þessu máli þótt hann sé vel að sér og betur að sér í þeim en flestir aðrir, ekki ætla ég að efast um það, en ég vil benda honum á að auðvitað er ekki verið að fara fram á viðræður við DD-14. Þetta eru viðræður við framkvæmdastjórnina í heild sinni og þá fyrst og fremst utanríkisdeild framkvæmdastjórnarinnar sem hlýtur að fara með slíkt mál formlega því þetta mál varðar miklu meira en fiskveiðimál.