Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:23:49 (6497)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Um það hvort tímabært væri að óska eftir slíkum formlegum samningaviðræðum eða ekki, þá sagði hv. 1. þm. Austurl.: Ja, hin EFTA-ríkin hafa sótt um og fengið aðildarviðræður þrátt fyrir óvissuna um EES. Það er alveg rétt, en þetta er ekki sambærilegt vegna þess að þau eru að biðja um annað. Þau eru að biðja um aðildarviðræður og sum þeirra voru byrjuð á því 1989 um það leyti sem EES-viðræðurnar voru að fara af stað. Við værum að fara fram á formlegar samningaviðræður nánast um það að spretta upp eða endurskoða viðskiptaþátt EES. Þetta tvennt er því ekki sambærilegt. Ég tel að okkur yrði kurteislega á það bent að bíða eftir því hvort EES nær gildistöku áður en við förum að óska eftir því að fara í formlegar samningaviðræður um hluti sem við höfum nýlega lokið við að gera.