Skýrsla um stefnu ríkisstjórnarinnar í rannsóknar- og þróunarmálum.

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 13:40:48 (6523)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni þessarar umræðu vil ég ítreka þá ósk sem ég beindi út af sama tilefni eða svipuðum á sl. vetri til forseta þingsins. Með öðrum orðum að menn skoðuðu hver færi væru á því að svara mjög umfangsmiklum skýrslubeiðnum hv. þm. á þeim tíma sem þingsköp gera ráð fyrir. Tilvitnuð skýrsla um málefni aldraðra sem lögð var fram beiðni um á síðasta þingi tók marga mánuði í vinnslu og þurfti að kaupa vinnu utanaðkomandi aðila fyrir ærið fé til að hægt væri að svara því. Það gefur auðvitað auga leið að beiðni um skýrslu verður að rúmast innan eðlilegrar fjárveitingar aðalskrifstofa ráðuneytanna og vera með þeim hætti lögð fram að það sé hægt að vinna það efni sem beðið er um að unnið sé á tilsettum tíma.