Söluskattur af mannvirkjum loðdýrabúa

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 10:31:19 (6631)

     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Herra forseti. Á þessu þingi hafa farið fram nokkrar umræður um vanda loðdýrabænda og innan þingheims hefur komið fram góður skilningur á því að það þurfi með einhverjum hætti að rétta þeim hjálparhönd. Í framhaldi af umræðum á þingi var flutt hér frv. sem fól í sér lykil að drjúgri lausn á skuldavanda loðdýrabænda. En aðstæður greinarinnar, fyrst og fremst afar dapurleg þróun á mörkuðum fyrir loðskinn, hafa leitt til þess að fjölmargir bændur sem hófu loðdýraeldi hafa neyðst til að hætta þátttöku sinni í greininni og er útlit fyrir að sá hópur vaxi fremur en hitt. Eigi að síður er mikið fé fest í byggingum sem á sínum tíma voru reistar undir loðdýrin og þessar byggingar standa nú auðar, eru vannýttar. Margir bændur hafa því hug á að freista þess að nýta húsin undir annars konar rekstur jafnvel selja þau frá sér til manna sem telja þau nýtanleg í öðrum rekstri en þau voru upphaflega byggð fyrir. Á því er hins vegar hængur. Á sínum tíma voru fjárfestingarvörur til loðdýraeldis undanþegnar söluskatti þannig að bændur fengu söluskatt vegna efniskaupa til loðdýrahúsa endurgreiddan. Þetta átti sér stoð í lögum frá 1960 þar sem fjmrh. var veitt heimild til að fella niður eða endurgreiða söluskatt af fjárfestingarvörum til loðdýraeldis. Þessar heimildir nýtti embættið sér með reglugerð nr. 138 frá 1988. Hængurinn felst hins vegar í því, virðulegur forseti, að í 7. gr. þeirra reglna var kveðið á um að yrðu mannvirkin tekin til annarra notkunar en loðdýraræktar þá yrðu bændur að greiða ríkinu söluskattsendurgreiðsluna til baka. Það er auðvitað alveg ljóst að eins og staðan er í dag hjá loðdýrabændum þá gerir þetta þeim gersamlega ómögulegt að taka húsin undir aðra notkun, þeir hafa einfaldlega ekki efni á að endurgeiða söluskattinn. En það er hins vegar til leið fram hjá þessu, virðulegur forseti. Í 6. gr. reglugerðar nr. 138 frá 1988 er hinu opinbera veitt sérstök heimild til að leyfa eigendum loðdýramannvirkja að taka þau til annarrar notkunar án þess að endurgreiðslan komi til. Í ljósi þeirrar þröngu stöðu sem loðdýrabændur eru í þá hef ég beint því til hæstv. landbrh. hvort hann muni beita sér fyrir því að almennt leyfi til breyttrar nýtingar verði gefið út án þess að bændum verði gert að standa skil á andvirði söluskattsins.