Málaferli vegna kjarasamninga

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:16:08 (6650)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Vegna orða hv. fyrirspyrjanda vil ég taka fram að það verður sjálfsagt seint þannig að ekki verða uppi ágreiningsmál um mál eins og kjarasamninga. Ég hygg að það fyrirkomulag sem við notum hér á landi, sem er félagsdómur, sé ágætis aðferð til að skera úr ágreiningi er varðar kjarasamninga, þ.e. til skýringar á kjarasamningum. Ég hygg að ekkert sé óeðlilegt við það að stefnur séu eins og fram kom í svarinu. Það er ýmist ríkið eða viðkomandi félög sem stefna, nánast sitt á hvað, og álíka mikill fjöldi af málum. Hæstaréttardómurinn vegna Félags ísl. náttúrufræðinga, eða BHMR-deilan, sem einstaklingur rak hefur nokkra sérstöðu. Þar reyndi á ákvæði stjórnarskrár m.a. vegna bráðabirgðalaga. Ég held að menn ættu að fara nokkuð varlega í að túlka niðurstöðu dómsins. Hann var á þá leið að hvorugur aðilanna náði sínu fyllilega fram og við verðum að átta okkur á að þrátt fyrir það að ríkið hafi greitt þessa upphæð sem ég tilnefndi, þá voru kröfur BHMR miklu meiri og allt aðrar. Aðalatriðið er að þarna var um nokkurs konar prófmál að ræða og niðurstaðan varð sú að það yrði að fara að svokallaðri jafnræðisreglu. Við þann dóm verðum við að una að sjálfsögðu og ég held að eftir að sá dómur féll hafi samskipti ríkisins og þessara félaga sem betur fer batnað til mikilla muna. Það er sannarlega von mín að á næstunni verði hægt að gera samninga við þessa aðila án þess að grípa þurfi til löggjafans eins og gert var, ég leyfi mér að segja, illu heilli með a.m.k. þeim hætti sem gert var 1990 um sumarið. Þá er ég fyrst og fremst að tala um aðdraganda þess máls fremur en efnisatriði.