Bygging húsnæðis fyrir matvælaiðjubraut Menntaskólans í Kópavogi

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:00:06 (6667)

     Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka menntmrh. svar hans og vil benda á að um leið og veitt var fé til byrjunarframkvæmda skólans í Kópavogi þá var brugðist mjög skjótt við og það þótti mjög jákvæður viðburður enda hafði verið beðið eftir framkvæmdum við skólann í mjög langan tíma eins og kom fram í máli mínu. Það er auðvitað nokkuð sérmál en var litið á það sem mjög góðan kost til að samnýta tækjabúnað að Hótel- og veitingaskólinn kæmi þarna inn, en ef við ætlum í ríkum mæli að vinna gæðavöru úr okkar úrvalshráefni núna þá verðum við að fylgja því eftir með menntunarmöguleikum á þessu sviði. Þess vegna er það mitt mat að það eigi að veita framhaldsskólanum í Kópavogi forgang núna eftir öll þessi ár og opna möguleika til eflingar því.
    Það er eins og hefðbundnir framhaldsskólar hafi fengið forgang á liðnum árum og er ekki við viðkomandi menntmrh. að sakast um það, en það er alveg ljóst líka að sumir framhaldsskólar hafa risið mjög hratt eftir að samningar hafa verið gerðir heima í héraði um þau mál og væri vænlegur kostur ef það gerðist með þennan skóla í Kópavogi. Því þykir mér slæmt að heyra að ekkert slíkt sé á döfinni milli Kópavogs og menntmrh. og áhugavert að kanna áhuga heimamanna á slíkum samningi og hvort hann er mögulegur.